Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur saksóknari
© BIG (VB MYND/BIG)
Í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á ráðstöfun fjármuna VÍS vátryggingafélags fóru fram húsleitir á tveimur stöðum í dag á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir aðilar voru á sama tíma færðir til skýrslutöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sérstökum saksóknara.

„Til rannsóknar eru m.a. fjöldi lánveitinga til ýmissa félaga og aðila á árunum 2007-2009. Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum vátryggingafélagsins og brot á lögum um vátryggingastarfsemi. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda tilvika. Málinu var vísað til embættis sérstaks saksóknara með kæru frá Fjármálaeftirlitinu.

Aðgerðirnar í dag hafa um nokkurn tíma verið í undirbúningi og tóku um 30 starfsmenn embættisins þátt í þeim auk lögreglumanna frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Úrskurðir til leitar voru kveðnir upp við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Yfirheyrslur hófust í morgun og er þess að vænta að þær standi fram á kvöld.

Embætti sérstaks saksóknara er ekki unnt að gefa frekari upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.