Orkustofnun hefur ákveðið að veita félögunum Faroe Petroleum Norge  og Íslensku Kolvetni annars vegar og Valiant Petroleum  og Kolvetni hins vegar sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu. Jafnframt hafa norsk stjórnvöld ákveðið að norska ríkisolíufélagið Petoro verði þátttakandi í báðum leyfunum, að fjórðungs hlut í hvoru leyfi fyrir sig eins og samningur Íslands og Noregs frá árinu 1981 heimilar þeim.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkustofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að þrjár umsóknir bárust í útboði vegna sérleyfa sem lauk 2. apríl síðastliðinn. Við úthlutun sérleyfanna leitaði Orkustofnun umsagna í samræmi við ákvæði laga og kannaði ítarlega getu umsækjenda til að takast á við þá umfangsmiklu starfsemi sem í leyfisveitingunni felst. Niðurstaða Orkustofnunar var sú að veita annars vegar Faroe Petroleum Norge AS  og Íslensku Kolvetni ehf og hins vegar Valiant Petroleum ehf og Kolvetni ehf sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu. Þá fékk þriðji umsækjandinn, Eykon ehf., frest til 1. maí 2013 til að afla sér samstarfsaðila   sem hefði að mati Orkustofnunar nægjanlega sérþekkingu,  reynslu og bolmagn til að annast þá starfsemi sem í leyfisveitingunni felst.

Áður en sérleyfin verða gefin út þarf norska stórþingið að samþykkja þátttöku norska ríkisins í verkefninu. Í kjölfar þess og þegar aðilar sérleyfanna hafa undirritað samstarfsamninga sína um verkefnin mun Orkustofnun gefa út umrædd leyfi, væntanlega í byrjun janúar á næsta ári.

Þá segir í tilkynningunni að þátttaka Noregs í sérleyfum á Drekasvæðinu er  mjög jákvæð fyrir framhald olíuleitar á Jan Mayen-svæðinu í heild enda undirstrikar hún trú Norðmanna á því hversu raunhæft verkefni hér er um að ræða. Þátttaka Norðmanna í sérleyfum gerir rannsóknir á Drekasvæðinu eftirsóknarverðari og dregur athygli olíufélaga að Íslandi sem fýsilegum kosti til rannsókna og eftir atvikum vinnslu olíu frá svæðinu til lengri tíma litið.