Stefnt er að mikilli uppbyggingu á íþróttasvæði Fram í Úlfarsárdal. Drög að samningi við Fram liggja fyrir og eru forsvarsmenn félagsins að fara yfir þau. Framkvæmdastjóri Fram segir félagið vilja flytja þó að forsendur hafi breyst mikið. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 25 þúsund manna byggð í hverfinu en nú geri skipulag ráð fyrir 9 þúsund manna byggð.

Heildarkostnaður við uppbyggingu íþróttasvæðis Fram í Úlfarsárdal nemur um fjórum milljörðum króna. Þetta kemur fram í drögum að samningi milli Reykjavíkurborgar og íþróttafélagsins. Samningsdrögin eru dagsett 8. desember og voru kynnt á síðasta fundi borgarráðs.

Þó að Knattspyrnufélagið Fram hafi undanfarin ár verið með aðstöðu í Úlfarsárdal hefur flutningurinn ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Ákvörðun um flutning Fram og uppbyggingu í dalnum var upphaflega tekin árið 2004 þegar félagið og borgin undirrituðu viljayfirlýsingu.

Hrunið breytti miklu

Í maí árið 2008 var samningur um uppbyggingu á svæðinu undirritaður en þær fyrirætlanir urðu að engu nokkrum mánuðum síðar þegar efnahagshrunið skall á. Árið 2011 var samið um að fara í ákveðnar framkvæmdir og var byggður gervigrasvöllur og útbúið æfingasvæði með bráðabirgða búningsaðstöðu. Einnig fékk félagið aðgang að íþróttahúsum Ingunnarskóla og Sæmundarskóla.

Nú hefur verið ákveðið að stíga skrefið til fulls samkvæmt því sem fram kemur í samningsdrögum, sem dagsett eru 8. desember. Drögin voru lögð fram á síðasta fundi borgarráðs.

Samkvæmt drögunum mun Reykjavíkurborg sjá um að byggja fjölnota íþróttahús í Úlfarsárdal. Húsið verður stórt því það á að rúma tvo handknattleiksvelli í fullri stærð, þversum. Gert er ráð fyrir því að skólar í hverfinu muni nýta húsið fyrripart dags.

Svipað og á Hlíðarenda

Íþróttahúsið verður svipað og íþróttahús Vals að Hlíðarenda að því leyti að það verður með áfastri áhorfendaaðstöðu fyrir aðalleikvang félagsins. Undir henni verða búningsklefar til viðbótar við aðra búningsklefa í íþróttahúsinu sjálfu.

Byggður verður nýr aðalleikvangur fyrir Fram og á honum verður gervigras með upphitun og flóðlýsingu, ásamt vökvunarkerfi. Við útisvæðið verður einnig byggt þjónustuhús. Þá skuldbindur borgin sig einnig til gera bílastæði við íþróttasvæðið og girða það af. Einnig verður lagt töluvert í lóðafrágang, göngu- og hjólaleiðir og ger undirgöng.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift .