Flugfélagið Play hefur bætt fjórum áfangastöðum í Evrópu við sumaráætlun sína. Um er að ræða borgirnar Prag í Tékklandi, Lissabon í Portúgal, Bologna á Ítalíu og Stuttgart í Þýskalandi. Í fréttatilkynningu er bent á að ekki er flogið beint til síðastnefndu þriggja borganna frá Íslandi í dag.

Flug til Lissabon hefst um miðjan maí á næsta ári og verður flogið tvisvar í viku. Áætlunarferðir Play til Prag hefjast sömuleiðis í maí á næsta ári og verður jafnframt flogið þangað tvisvar í viku. Þá mun Play einnig fljúga tvisvar í viku til Bologna og Stuttgart en áætlunarferðir þangað hefjast í júní á næsta ári.

„Þessir fjórir nýju áfangastaðir munu styrkja leiðakerfi Play og frábært að geta opnað Evrópu enn frekar fyrir Íslendingum. Við höfum fulla trú á þessum áfangastöðum og búumst ekki við öðru en að þeim verði vel tekið, bæði af Íslendingum sem og þeim sem búa í þessum borgum og vilja ferðast til Íslands,” segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Play hafði áður tilkynnt um að Mallorca og Malaga hafi verið bætt við sumaráætlunina og þar með verða áfangastaðir flugfélagsins á Spáni sex talsins. Þá mun Play hefja flug til Gautaborgar, Stafangurs og Þrándheims í lok maí.