Þau Magnea Guðmundsdóttir (ritari), Guðný Kristjánsdóttir, Páll Erland og Friðjón Einarsson settust ný í stjórn HS veitna á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær. Áfram í stjórninni sitja Böðvar Jónsson (formaður), Árni Sigfússon (varaformaður) og Eyjólfur Sæmundsson.

Úr stjórninni fóru Björk Guðjónsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Ólafur Thordersen og Glúmur Jón Björnsson.

Hagnaður HS Veitna á síðasta ári nam 321 milljón króna.Í tilkynningu frá félaginu segir að í ljósi sterkrar lausafjárstöðu hefur stjórn félagsins ákveðið að greiða niður skuldir félagsins, umfram lánaskilmála, að upphæð 900 milljónir króna og lækka þannig heildarskuldir um 15%. Eigið fé HS veitna nemur 8,7 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall er 53%. Þetta kom fram í máli Árna Sigfússonar á fundinum í gær.

Félagið er að 66,7% hluta í eigu Reykjanesbæjar. Auk Reykjanesbæjar á Orkuveitan 16,6% hlut í fyrirtækinu og Hafnarfjörður 15,4% .