*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Fólk 18. ágúst 2021 18:31

Fjórir nýir ráðgjafar hjá KPMG

Anna-Bryndís, Björg Ýr, Helena Júlía og Ingvar Ágúst eru nýir ráðgjafar á ráðgjafarsviði KPMG.

Nýju ráðgjafarnir frá vinstri: Anna-Bryndís, Ingvar Ágúst, Björg Ýr og Helena Júlía.
Aðsend mynd

Ráðgjafarsvið KPMG hefur fengið til starfa fjóra nýja ráðgjafa, þau Önnu-Bryndísi Zingsheim Rúnudóttur, Björgu Ýri Jóhannsdóttur, Helenu Júlíu Kristinsdóttur og Ingvar Ágúst Ingvarsson. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á ráðgjafarsviði KPMG á Íslandi starfa um 45 ráðgjafar sem veita fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum ráðgjöf á sviði fjármála, rekstrar, áhættu- og upplýsingatækni. Ráðgjafarsvið KPMG er enn fremur hluti af 1.500 manna ráðgjafarteymi KPMG á Norðurlöndunum sem hefur nær daglega aðkomu að ráðgjafaverkefnum fyrir viðskiptavini KPMG á Íslandi. 

Anna-Bryndís í rekstrarráðgjöf

Anna-Bryndís mun starfa í rekstrarráðgjöf KPMG. Hún lauk námi við King's College London í hagfræði og stjórnun með áherslu á umhverfisfræði í vor. Anna-Bryndís stundaði auk þess nám við The University of Hong Kong þar sem hún vann m.a. við mat á umhverfis- og félagslegum áhrifum af starfsemi fyrirtækja í Suð-Austur Asíu. 

Anna-Bryndís hefur unnið á fjármála- og viðskiptabankasviði Arion banka þar sem hún vann við erlend viðskipti og uppgjör sjóða og tengdra félaga. Þá kom hún að stofnun sprotafyrirtækis í samvinnu við King's College London.  

 Björg Ýr og Helena Júlía í innri endurskoðun og áhættustjórnun

Björg Ýr hefur hafið störf á ráðgjafarsviði í innri endurskoðun og áhættustjórnun. Hún hefur starfað við innri endurskoðun og tölvuendurskoðun frá árinu 2012 mest innan fjármálafyrirtækja. Hún vann einnig um tíma í Bandaríkjunum hjá Eaton Vance fjárfestingarfélaginu og T-Mobile símafyrirtækinu og núna síðast hjá Borgun/Saltpay.

Björg Ýr er með B.Sc. gráðu í Tölvunarfræði frá HÍ og M.ACC gráðu frá HR. Þá hefur hún lokið alþjóðlegum faggildingum í tölvuendurskoðun og áhættumati í rekstri tölvukerfa.

Helena hefur jafnframt verið ráðin á ráðgjafarsvið í innri endurskoðun og áhættustjórnun. Hún var í vor í starfsnámi á ráðgjafarsviði KPMG og lauk B.Sc. námi í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík nú í vor. Helena hefur unnið í bókhaldsdeild Norðuráls þar sem hún vann við færslur, afstemmingar og uppgjör.

Ingvar Ágúst í Microsoft lausnir og þjónustu

Ingvar Ágúst mun sérhæfa sig í Microsoft 365 ráðgjöf og hagnýtingu Microsoft lausna og þjónustu. Hann hefur verkefnastýrt fjölda Microsoft innleiðingarverkefna fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Íslandi og haldið fjölda vinnustofa í tengslum við innleiðingar.

Ingvar Ágúst starfaði áður sem ráðgjafi og sviðsstjóri viðskiptaþróunar- og ráðgjafar hjá Þekkingu og hefur auk þess unnið hjá Microsoft Íslandi, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Skýrr og Íslenska menntanetinu.

Ingvar Ágúst er með B.Ed.-gráðu í kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands og hefur auk þess lokið IPMA vottun í verkefnastjórnun.

Stikkorð: KPMG