Þau Kristinn Ingi Ásgeirsson, Hreiðar Þór Hrafnsson, Hildur Eygló Einarsdóttir og Signý Jóna Hreinsdóttir hafa verið ráðin til Mílu, dótturfélags Skipta.

Kristinn Ingi Ásgeirsson

Kristinn Ingi Ásgeirsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Aðgangsnets sem er nýtt svið innan Mílu.  Aðgangsnet ber ábyrgð á uppbyggingu, rekstri og þróun á aðgangskerfum Mílu, s.s. kopar og ljósleiðarlögnum og virkum aðgangsnetum. Forstöðumaður situr í framkvæmdastjórn Mílu. Kristinn Ingi hefur mikla starfsreynslu á sviði aðgangskerfa og starfaði áður sem deildarstjóri á Tæknisviði Símans og stýrði þar m.a. uppbyggingu Ljósnets Símans.  Hann hefur starfað í fjarskiptaumhverfi samfleytt frá árinu 1997.

Kristinn lauk námi í rafmagnsverkfræði frá háskóla íslands 1991 og lauk framhaldsnámi í faginu frá Danmarks Tekniske Universitet árið 1997.

Hreiðar Þór Hrafnsson

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hreiðar Þór Hrafnsson hefur verið ráðinn deildarstjóri Kerfisvöktunar hjá Mílu. Hreiðar ber ábyrgð á sólarhringsvöktun fjarskiptakerfa hjá Mílu, auk fyrstu viðbragða vegna bilana sem upp koma í kerfum Mílu. Deildarstjóri ber ábyrgð á tilkynningum til viðskiptavina þegar upp koma bilanir eða önnur útföll, s.s. vegna náttúruhamfara.

Áður starfaði Hreiðar sem verkfræðingur hjá Raftákni ehf. verkfræðistofu á Akureyri.  Sem starfsmaður Raftákns starfaði Hreiðar m.a. í sértækum verkefnum fyrir Mílu. Þar áður starfaði Hreiðar sem sérfræðingur hjá Mílu og sem deildarstjóri hjá Símanum hf. Hreiðar lauk B.sc. námi í rafmagnstæknifræði með sérhæfingu á háspennusviði frá háskólanum í Stavanger í Noregi árið 1994.

Hildur Eygló Einarsdóttir

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hildur Eygló Einarsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri nýrrar deildar hjá Mílu, Tekjueftirlits og greiningar sem heyrir undir Fjármálasvið Mílu. Verkefni deildarinnar felast aðallega í eftirliti með tekjum fyrirtækisins og greiningu á tekjum og gjöldum fyrirtækisins auk kostnaðargreininga.

Hildur starfaði áður hjá Deloitte sem verkefnastjóri á Endurskoðunarsviði þar sem megin starfssvið hennar var endurskoðun, reikningsskil, skattaútreikningar og ráðgjöf.

Hún lauk námi í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands ári 2001.

Signý Jóna Hreinsdóttir

Signý Jóna Hreinsdóttir
Signý Jóna Hreinsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Signý Jóna Hreinsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri nýrrar deildar hjá Mílu, Viðskiptaþróunar sem heyrir undir Þjónustu hjá Mílu. Starf deildarstjóra Viðskiptaþróunar felst í að leiða viðskiptaþróun og vörustýringu hjá fyrirtækinu..

Signý starfaði áður sem deildarstjóri Lausna hjá Mílu þar til hún fór til náms í Noregi. Einnig hefur hún starfað að stökum verkefnum í Noregi, s.s. við gerð markaðs og viðskiptaáætlana.

Signý lauk BSc námi í Alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskólanum/ Háskólanum í Reykjavík. Einnig hefur hún lokið meistaranámi í nýsköpunar og frumkvöðlafræðum frá BI Norwegian Business School.