H:N Markaðssamskipti hafa ráðið fjóra nýja starfsmenn vegna aukinna umsvifa. Starfsmennirnir eru Andri Þór Ingvarsson, Diljá Jóhannsdóttir, Jónbjörn Finnbogason og Lúna Grétudóttir. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Stofan heldur áfram að vaxa og dafna og það er mikið ánægjuefni að geta ráðið inn hæfileikaríkt og reynslumikið fólk til að takast á við ný og spennandi verkefni," segir Kristján Hjálmarsson, framkvæmdarstjóri H:N Markaðssamskipta. „Nýlega réðum við inn þrjá nýja starfsmenn og því fer ekki á milli mála að stofan hefur tekið mikinn vaxtarkipp undanfarna mánuði."

Andri Þór Ingvarsson, grafískur- og hreyfihönnuður, er með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Andri starfaði áður sem grafískur hönnuður hjá Gagarín.

Diljá Jóhannsdóttir, grafískur hönnuður, er með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Háskólanum í Bergen og hefur starfað sem slíkur hjá Tvist og Ketchup Creative.

Jónbjörn Finnbogason, grafískur hönnuður, er með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Jónbjörn hefur starfað sem grafískur hönnuður hjá Jónfrí & Co auk þess að reka og starfa sem listrænn stjórnandi hjá útgáfufyrirtækinu Lagaffe Tales.

Lúna Grétudóttir, almannatengill, lauk BA-gráðu í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum á Bifröst núna um jólin. Lúna starfaði síðast sem sumarstarfsmaður í samskipta- og upplýsingateymi Orkuveitu Reykjavíkur auk þess að starfa sem yogakennari og þjálfari hjá Mjölni.

„H:N Markaðssamskipti er ein af elstu auglýsingastofum landsins og fagnaði 30 ára afmæli í fyrra. Nú starfa vel á þriðja tug hjá stofunni á Íslandi og útibúi stofunnar í Brighton á Englandi og í Svíþjóð. H:N Markaðssamskipti hafa unnið til árangursverðlauna Ímark (Effie) sjö sinnum í þau 12 skipti sem þau hafa verið veitt. Stofan hefur einnig verið leiðandi í notkun nýmiðla, viðbættum veruleika (e. augmented reality) og sýndarveruleika (e. virtual reality), og hefur unnið til verðlauna fyrir sýndarveruleikasafnið 1238 í Skagafirði, sem byggir meðal annars á Örlygsstaðabardaga,“ segir í tilkynningunni.