*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Fólk 24. október 2017 10:40

Fjórir nýir til Kolibri

Hugi Hlynsson, Haukur Kristinsson, Rakel Björt Jónsdóttir og Sigrún Sigurjónsdóttir hafa verið ráðin til Kolibri.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Fjórir nýir starfsmenn hafa hafið störf hjá Kolibri en fyrirtækið sinnir ráðgjöf og hugbúnaðarþróun á fyrirtækjamarkaði og hjálpar viðskiptavinum sínum að umbreyta vörum og þjónustu yfir á stafrænt form að því er segir í fréttatilkynningu. Hjá Kolibri starfa nú 24 starfsmenn en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgartúni 26.

Hugi Hlynsson hefur verið ráðinn til starfa hjá Kolibri við að búa til stafræn notendaviðmót fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Hugi hefur  reynslu af vöruþróun og vinnu við stafrænar lausnir, m.a. fyrir Takumi, Blæ og QuizUp. Kærasta Huga er Júlía Runólfsdóttir, sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður og eiga þau ársgamlan dreng.

Haukur Kristinsson er hugbúnaðarsérfræðingur og mun sinna ráðgjöf og þróun hugbúnaðarlausna fyrir viðskiptavini Kolibri. Haukur var áður forstöðumaður hugbúnaðardeildar Samskipa á Íslandi. Hann lauk M.Sc. gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 og B.Sc. gráðu í tæknifræði 2008. Unnusta Hauks er Anna Marín Skúladóttir og eiga þau tvö börn.

Rakel Björt Jónsdóttir mun sinna þróun viðmóts á hugbúnaðarlausnum sem Kolibri smíðar fyrir viðskiptavini sína. Hún er með B.Sc gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði áður hjá Advania við vefsmíði. Kærasti Rakelar er Bragi Bergþórsson, forritari hjá Gangverk og menntaður óperusöngvari.

Sigrún Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri hjá Kolibri. Mun Sigrún hafa umsjón með daglegum rekstri skrifstofu Kolibri ásamt því sem hún mun taka að sér verkefni tengd viðburðum fyrirtækisins. Sigrún hefur meðal annars starfað hjá Hafnarfjarðarbæ, Vatnajökulsþjóðgarði og Þjónustumiðstöð bókasafna.

Ólafur Nielsen, framkvæmdastjóri Kolibri segir ráðningarnar vera vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu Kolibri og að umsvif fyrirtækisins séu sífellt að aukast. „Við erum ákaflega ánægð með þetta nýja fólk og hlökkum til að takast á við spennandi verkefni með þau okkur við hlið,“ segir Ólafur.