„Þetta er hreint ævintýri. Ég hef aldrei lent í svona mokveiði áður,“ segir Ingimar Finnbjörnsson, skipstjóri á aflakróksbátnum Steinunni HF, sem gerður er út frá Flateyri. Báturinn sló met í síðasta mánuði þegar hann mokveiddi steinbítnum upp í aprílmánuði. Báturinn fór í 24 róðra í mánuðinum og veiddi samtals 232 tonn. Gott  þykir ef einn bátur nær að veiða 150 tonn á einum mánuði. Ætla má að aflaverðmæti steinbítsins úr Steinunni nemi tæpum 38,3 milljónum króna miðað við 165 króna meðalverð á óslægðum steinbít á fiskmörkuðum í síðasta mánuði. Meðalafli í hverju róðri Steinunnar nam 9,5 tonnum. Miðað við ofangreint meðalverð gaf hver túr af sér tæpar 1,6 milljónir króna.

Fjórir menn skipta með sér tveimur stöðum á Steinunni en Andri Rafn Kristjánsson leysir Ingimar af sem skipstjóri þegar hann er í fríi. Það er fiskvinnslan Kambur í Hafnarfirði sem gerir Steinunni HF út. Fiskvinnslan á líka krókaaflsmarksbátinn Kristján HF.

Ítarlega er fjallað um útgerðina á Steinunni í Fiskifréttum sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.