Fjármálaeftirlit Bretlands mun sækja fjóra fyrrverandi yfirmenn hjá British Airways til saka fyrir verðsamráð.

Frá þessu var fyrst greint í Financial Times. British Airways og Virgin Atlantic höfðu verðsamráð sín á milli á árunum 2004-2006 og var British Airways í kjölfarið sektað um 270 milljónir punda af samkeppnisyfirvöldum. Nú telja menn næg sönnunargögn vera til staðar til opinberrar ákæru á hendur fjórum yfirmönnum British Airways.

Þeir eru Andrew Crawley, fyrrverandi sölustjóri flugfélagsins, Martin George, fyrrum stjórnarmeðlimur félagsins, Iain Burns, fv. tengslafulltrúi British Airways og sölustjórinn Alan Burnett.

Enginn af starfsmönnum Virgin Atlantic verður dreginn fyrir dóm, en Virgin Atlantic slapp einnig við sekt frá samkeppnisyfirvöldum þar sem félagið upplýsti málið til að byrja með og sýndi góðan samstarfsvilja við rannsókn þess. Samkvæmt frétt Guardian gætu mennirnir fjórir verið dæmdir í allt að fimm ára fangelsi.