Fjórtán verkefni fengu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans í gær, að því er fram kemur á vef bankans. Sex verkefni hlutu 500 þúsund krónur hvert og átta verkefni 250 þúsund krónur, samtals fimm milljónir króna.

Alls hafa um sextíu verkefni hlotið umhverfisstyrki á síðustu fjórum árum, samtals 20 milljónir kr. Þetta er í fjórða sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans. Í ár bárust um 90 umsóknir.

Umhverfisstyrkjum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið.

Dr. Guðrún Pétursdóttir, formaður dómnefndar, segir ánægjulegt hversu margir eru að vinna að mikilvægum verkefnum á sviði náttúruverndar um land allt. Að sama skapi sé ánægjulegt að Landsbankinn leggi slíkri starfsemi lið.

Nánari upplýsingar um styrkþega má nálgast hér.