Fjórtán efnahagsbrotamál tengd hruninu eru fullrannsökuð hjá embætti sérstaks saksóknara og bíða þess að ákvörðun verði tekin um hvort saksótt verði í þeim eða ekki. Kjarninn greinir frá þessu.

Þar kemur fram að til viðbótar séu 24 slík mál í rannsókn og mörg þeirra langt komin. Búist sé við ákvörðun um hvort ákært verði í flestum málanna á þessu ári.

Nú eru 64 mál í heildina til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara og 50 til viðbótar bíða ákvörðunar um saksókn. Alls bíða 29 mál sem hafa verið kærð til embættisins úthlutunar í rannsókn og í fjórum málum er verið að greina sakarefni.

Af þessum fjölda eru 43 mál tengd hruninu; þrjú þeirra eru skráð í bið, tvö eru í greiningu, 24 í rannsókn og fjórtán bíða ákvörðunar um saksókn.