Alls hverfa 14 starfsmenn frá Hafrannsóknastofnun eftir uppsagnir hjá stofnuninni í dag. Tíu manns var sagt upp. Þrír sviðsstjórar sögðu upp störfum eftir að þeim var boðið að starfa sem sérfræðingar eftir að ákveðið var að fækka í yfirstjórn.

Þetta kemur fram í frétt Rúv.

Þar er rætt við Sigurð Guðjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Skipulagi stofnunarinnar verður breytt og fagsviðum fækkað úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö. Umhverfissvið stofnunarinnar er horfið af skipuritinu eftir breytingarnar.

„Í tengslum við flutning á starfsemi stofnunarinnar úr Reykjavík á einn stað í Hafnarfirði munu verða breytingar í rekstri stoðþjónustu stofnunarinnar, störfum þar fækkað og ekki verður endurráðið í stöður sem losna á næstu mánuðum. Kjarnastarfsemi Hafrannsóknastofnunar verður óbreytt og verður öllum helstu rannsóknaverkefnum áfram sinnt,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar.

Í frétt Rúv segir að meðal þeirra sem nú hætta störfum á stofnuninni er fólk með áratuga starfsreynslu. Sigurður segir að sumir þeirra tíu sem sagt var upp hafi verið í hlutastarfi.

„Við vorum að fækka í yfirstjórn og fækka sviðum þannig að við buðum sviðsstjórum að verða sérfræðingar en þeir kusu að fara,“ segir Sigurður í viðtalinu við Rúv. „Auðvitað er fólki brugðið. Það er aldrei gaman að þurfa að segja upp fólki,“ segir Sigurður. Hafrannsóknarstofnun sé gert að hagræða, til standi að flytja stofnunina í nýtt húsnæði í Hafnarfirði og svo sé verið að taka upp ýmis konar kerfi sem þýði færri störf. Fjárveitingar hrökkvi ekki til svo unnt sé að halda öllum í starfi. Þeir sem hætti hafi sinnt stoðþjónustu.

Eins og Fiskifréttir hafa greint frá komu þeir Sigurður Guðjónsson forstjóri og Kristján Þór Júlíusson ráðherra báðir inn á fjármögnun stofnunarinnar á ársfundi Hafrannsóknastofnunar í september og þær hagræðingarkröfur sem stjórnvöld gera til hennar.

„Ég ætla nú að gerast svo djarfur að tala um flatan niðurskurð sem ber kannski ekki mikinn vott um forgangsröðun,“ sagði Sigurður þá og beindi orðum sínum til ráðherrans. „Eins og fram kom hjá ráðherra er skýr vilji til að efla hafrannsóknir og umhverfisrannsóknir og þá vildum við gjarnan sjá að þessari hagræðingarkröfu yrði aflétt að minnsta kosti um stund af okkur.“

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að hafrannsóknir gegni lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þurfi að efla.

Í ávarpi Kristjáns Þórs á ársfundinum sagði hann að þessari stefnumörkun í samstarfssáttmála stjórnarflokkanna hafi verið fylgt eftir af fullum þunga. Auk aukins framlags á fjárlögum, nýrrar byggingar sem nú rís í Hafnarfirði og væntanlegrar smíði nýs hafrannsóknaskips boðaði ráðherrann samstarf um að efla rannsóknir á vistkerfisbreytingum í hafinu.