Gengi hlutabréfa í verslunarkeðjunni Sainsbury hækkuðu í kauphöllinni í London í gær í kjölfar þess að ríflega fjórtán prósent í félaginu voru seld fyrir 1,8 milljarða sterlingspunda á genginu 575 pens á hlut. Gengi bréfa í félaginu hækkuðu um tæplega átta prósent í gær og leiddi Sainsbury hækkanir í kauphöllinni í London.

Talið er að stærsti hluthafinn í Sainsbury, AllianceBernstein, hafi selt hlut sinn. Financial Times gerir að því skóna að Three Delta, sem er fjárfestingarsjóður í eigu stjórnvalda í Katar, hafi keypt hlutinn. Three Delta hefur verið orðað við Sainsbury og fyrir nokkru var talið hugsanlegt að sjóðurinn reyndi að komast yfir Sainsbury í samstarfi við Marks & Spencer verslunarkeðjuna. Blaðið bendir á að Paul Taylor, stjórnandi Three Delta, er samverkamaður Robert Tchenguiz, sem er helsti samstarfsaðili Kaupþings á Bretlandseyjum og stjórnarmaður í Exista, en hann ræður um fimm prósenta hlut í félaginu. Orðrómur er um að Three Delta og Tchenguiz hyggist nú beita sér fyrir því að losað verði um fasteignir Sainsbury, en mikil verðmæti eru talin felast í þeim. Það var ekki síst vegna þeirra sem hópur einkafjárfestingarsjóða gerði tilboð í verslunarkeðjuna á dögunum. Því tilboði var hafnað sem kunnugt er.

Sérfræðingar hjá Seymour Pierce telja að annað yfirtökutilboð í Sainsbury sé ólíklegt. Þeir telja að hér sé um að ræða viðskipti sem ætlað sé að styrkja stöðu þeirra sem vilja að félagið selji fasteignasafn verslunarkeðjunnar.