Iðnaðarráðherra hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr Orkusjóði til rannsókar- og kynningarverkefna fyrir árið 2008. Styrkirnir eru veittir verkefnum sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu.

Veittir eru 14 styrkir að upphæð 25,1 milljón króna. Alls bárust 26 umsóknir um samtals 147,3 m.kr. og voru í þeim hópi ýmis áhugaverð og mikilsverð verkefni sem ekki var unnt að styrkja að þessu sinni.

Í tilkynningunni kemur fram að rannsóknar- og fræðslustyrkir þessir eru veittir árlega úr Orkusjóði samkvæmt lögum um Orkustofnun, Orkuráð og Orkusjóð til „sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi“ og til „verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni.“

Þá kemur fram að í auglýsingu var nú lögð áhersla á verkefni sem snertu hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað, innlenda orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis. Um hvern styrk er gerður samningur þar sem kveðið er á um verk- og kostnaðaráætlun, áfanga við greiðslu styrkfjárhæðarinnar, framvinduskýrslur og skilagögn.

Miðað er við að styrkir úr Orkusjóði geti numið allt að helmingi kostnaðar við verkefnið sem styrkinn hlýtur eða þann hluta þess sem styrktur er.