Það verður fjörugur Viðskiptaþáttur á Útvarpi Sögu í dag að vanda. Í fyrri hluta þáttarins verður rætt um ferðaþjónustu og stórlaxa - eitthvað sem fer mjög vel saman! Þátturinnhefst á því að rætt er við Ingu Sólnes, en hún rekur fyrirtæki sem heitir Gestamóttakan. Haustið er komið og hið opinbera ferðamannatímabil búið - eða hvað? Laxveiðitímabilið er farið að styttast verulega í annan endan, en í þættinum í dag verður aflað frétt af því hvernig veiðin hefur gengið hjá Stangveiðifélaginu Lax-á í sumar.

Hringt verður í Stefán Sigurðsson, sölustjóra hjá Lax-á, en hann er staddur við Ytri-Rangá þessa stundina, þar gengur veiðin gríðarlega vel - áin komin yfir 2000 laxa og í morgun voru enn að veiðast nýgengnir laxar - eitthvað sem kemur mönnum verulega á óvart.

Í síðari hluta þáttarins verður rakið hvernig hægt er að sigra íslenskan hlutabréfamarkað hvorki meira né minna - og einngig samkeppnismál.

Fyrst verður rætt við Stefán Bjarna Gunnlaugsson, lektor við Rekstrar- og viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri, en hann var að kynna nýja rannsókn sem hann gerði ásamt Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi. Rannsóknin byggir á gögnum af íslenskum hlutabréfamarkaði á árunum 1993-2003 en Stefán og Ásgeir rannsökuðu hvort hægt væri að ná betri ávöxtun en hlutabréfamarkaðurinn í heild með því að fjárfesta í ákveðnum félögum - og niðurstaða þeirra segir að það sé hægt.

Á morgun fer fram alþjóðleg ráðstefna um samkeppnisreglur í Reykjavík, þar sem leiðarstefin verða samkeppni fákeppni, samþjöppun, ríkisstyrkir, EES og ESB. Fjöldi fróðra sérfræðinga mun stíga á stokk og vissara að leggja við hlustir, því samkeppnisreglur hafa breyst meira á síðustu fimm árum en á síðustu fimm áratugunum þar á undan. Vegna aðildar okkar að EES skipta þessar breytingar íslensk fyrirtæki og íslensk yfirvöld miklu máli. Rætt verður um þessi mál við Eggert B. Ólafsson, héraðsdómslögmann hjá Lögræðistofu Reykjavíkur, en hún heldur ráðstefnuna ásamt Euphoria í Brussel.

Þátturinn er á Útvarpi Sögu (99,4) á milli 16 og 17 daglega og er endurfluttur kl. eitt eftir miðnætti.