„Leggja verður höfuðáherslu á að við ákvarðanir um vegaframkvæmdir næstu tvö árin, verði byggðir upp þeir hlutar vegakerfisins sem setið hafa á hakanum mörg undanfarin ár,“ segir í ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga. Segir hún vegina suma hverjir orðna hálfrar aldar gamla og koma í veg fyrir eðlileg samskipti milli þéttbýlisstaða á Vestfjörðum yfir vetrartímann. „Þetta er staða sem engin önnur samfélög þurfa að búa við hér á landi.“

Krefst Fjórðungssambandið þess að litið verði í þessu samhengi til tveggja verkefna, annarsvegar á framkvæmdir við Vestfjarðaveg 60 um Barðastrandarsýslur, frá Flókalundi að Bjarkalundi, og hinsvegar til jarðganga á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Á stjórnarfundi í Fjórðungssambandi Vestfirðinga sem haldinn var 8. júlí s.l. voru til umfjöllunar áhrif efnahagsmála á vöxt og viðgang í vestfirskum samfélögum. Samþykkt var ályktun í tveimur liðum, annars vegar um samgöngumál en hinsvegar um efnahagsmál.