Þrátt fyrir skjóta aðlögun heimilanna í neyslu eftir hrun virðist fjórðungur heimila í landinu eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum samkvæmt nýrri úttekt IFS greiningar. Líklegt er að 50 til 80% þeirra sem eiga í greiðsluvandræðum hafi keypt fasteign á árunum 2004 til 2008.  Yngra fólk kemur verr út en eldri kynslóðir. Varfærið mat IFS greiningar á afskriftum eða útlánatöpum fjármálastofnanna vegna heimila er 5% til 10%.

„Afskriftirnar eru e.t.v. lægri en ætla mætti en margir þeirra sem hafa neikvæða eiginfjárstöðu standa í skilum og sumir þeirra sem ráða ekki við greiðslubyrði lána eiga eignir umfram skuldir.  Afskriftir fjármálastofnana vegna heimila eru því ekki eins miklar og ætla mætti," segir í skýrslu IFS.

„Hrunið hafði þau áhrif að hlutfallsleg verð breyttust mjög mikið.  Innlendar vörur hækkuðu mun minna en innfluttar og urðu hlutfallslega ódýrari. Heimili brugðust skjótt við nýjum raunveruleika og dróst innflutningur á föstu gengi saman um 45% á milli fyrstu níu mánuði ársins 2008 og 2009.  Einkaneysla dróst minna saman því að fólk breytti neysluhegðun sinni á þann hátt að neysla á innlendum vörum jókst en neysla á innfluttum vörum dróst saman. Halli af vöruskiptum við útlönd breyttist í afgang.  Þrátt fyrir þessa skjótu aðlögun virðist um fjórðungur heimila í landinu eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum, samkvæmt okkar mati," segir IFS.

Yngra fólk verr statt

Hvað heimilin varðar er staða þeirra mjög misjöfn að mati IFS. „ Allt að 40% heimila á höfuðborgarsvæðinu fór í nýtt húsnæði á árunum 2004-2008. Stór hluti þeirra býr í mjög skuldsettu húsnæði, sérstaklega þeir sem keyptu húsnæði á árunum 2006-2008.  Undir þennan hóp fellur ungt fólk sem var að kaupa sína fyrstu íbúð og barnafólk sem var að stækka við sig. Bankahrunið hefur komið illa við þennan hóp auk lág– og meðaltekjufólks.  Eignabólan sem myndaðist á fasteignamarkaði á árum 2004 og 2008 á stóran þátt í greiðsluvandræðum heimilanna. Líklegt er að 50 til 80% þeirra sem eiga í greiðsluvandræðum hafi keypt fasteign á árunum 2004 til 2008.  Það er því ekki að undra að stærsti hluti þeirra Íslendinga sem flutt hafa af landi brott er ungt fólk. "