Um fjórðungur þeirra opinberu stofnana, fyrirtækja og hlutafélaga sem svöruðu könnun viðskiptaráðuneytis um seðilgjöld segjast leggja seðilgjald eða annan aukakostnað við aukakröfu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

278 fyrirtækjum var send fyrirspurn vegna úttektarinnar og var svarhlutfall 88,4%. Af svarendum kváðust 181 senda út kröfur og þar af 44 eða 24,3% leggja seðilgjald eða annan aukakostnað við aðalkröfu, þó ekki endilega við allar innheimtar kröfur hlutaðeigandi aðila.

Viðskiptaráðherra beindi þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja í febrúar síðastliðnum að afnema seðilgjöld og sambærilegar fylgikröfur, sem neytendur hafa ekki átt kost á að samþykkja eða taka afstöðu til.

Tilmæli ráðherra fólu ennfremur í sér að í þeim tilvikum sem samið hefur verið um greiðslu á seðilgjöldum og sambærilegum fylgikröfum við neytendur skuli fjárhæð gjaldsins endurspegla raunkostnað við útsendingu seðla, enda fái neytendur lögum samkvæmt reikning vegna viðskipta og að þeim standi til boða raunhæfur gjaldfrjáls valkostur, svo sem að greiða með millifærslu,” segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins.