Í nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir ASÍ kemur fram að 16% telja líklegt að laun þeirra verði lækkuð á næstunni. 73% telja það hins vegar ólíklegt. Einnig var spurt út í lækkun starfshlutfalls, en 10% aðspurðra búast við að það verði lækkað á næstunni en 82% telja það ólíklegt.

Í könnuninni kemur einnig fram að 14% þeirra sem eru í launaðri vinnu hafa lent í beinni launalækkun frá bankahruninu í byrjun október. Þá hefur starfshlutfall verið lækkað hjá 7% svarenda.

Mun fleiri karlar en konur hafa þurft að taka þessar skerðingar á sig. Laun hafa til að mynda verið lækkuð hjá 18% karla en 8% kvenna.

Um 85% þeirra sem nú eru atvinnulausir misstu vinnuna eftir bankahrunið í október sl., samkvæmt könnuninni. Þá kemur fram að 24% þeirra sem eru í launaðri vinnu óttast nú um starf sitt.