Eins og greint var frá í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins inntu tveir fyrrum starfsmenn Kaupþings af hendi samfélagsþjónustu, eftir að þeir voru dæmdir í Hæstarétti í 6 mánaða fangelsi hvor fyrir markaðsmisnotkun.

Mennirnir sem voru dæmdir í mars 2011, þeir Stefnir Agnarsson og Daníel Þórðarson, hafa hvorugir sætt refsingu áður vegna lagabrota. Er það eitt þeirra atriða sem Fangelsismálastofnun lítur til þegar ákveðið er hvort dæmdum einstaklingum sé heimilt að taka út refsingu með samfélagsþjónustu í stað fangelsisvistar.

Störfin, sem eru ólaunuð í þágu samfélagsins eins og líknar- eða hjálparstörf, eru unnin utan vinnutíma eða á kvöldin og um helgar. Fjörutíu klukkustunda vinna sem samfélagsþjónn jafngildir eins mánaðar fangelsisrefsingu. Daníel og Stefnir hafa samkvæmt því gegnt þjónustunni í 240 klukkustundir hvor. Það eru 30 vinnudagar sé miðað við 8 klukkustunda vinnudag. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa þeir lokið þjónustunni.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.