Um fjörutíu mál er varða Íslendinga í skattaskjólum eru til rannsóknar hjá embætti skattrannsóknarstjóra og hefur Markaðurinn eftir Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra, að embættið komist aðeins yfir brot af þessum fjölda. Nokkur mál hafi verið leyst en í öðrum hafi ekki tekist að afla allra gagna og sum málin geti verið í rannsókn í á annað ár. Miklir fjármunir séu í skattaskjólum, sérstaklega Lúxemborg.

Bryndís segir reynsluna af upplýsingaskiptasamningum misgóða, stundum sé reynt að teygja lopann til hins ítrasta. Samningarnir séu þó til bóta.

Þá hefur blaðið eftir Skúla Eggert Þórðarsyni, ríkisskattstjóra, að Íslendingar séu í einhverjum mæli farnir að yfirgefa skattaskjólin. Upplýsingar um eignir og fjármuni í útlöndum séu farnar að birtast á framtölum og geti það m.a. skýrst af upplýsingaskiptasamningum eða einfaldlega því að einstaklingar í fjárhagsvandræðum noti eignir sem faldar hafa verið í skattaskjólum til að leysa vandann.