Rúmlega tveimur árum eftir upphaf fjármálakreppunnar er enn unnið af fullum krafti að uppbyggingu nýrra bygginga í Dubai, einu af Hinum sameinuðu furstadæmum. Á næstu árum mun framkvæmdum við tugi þúsunda nýrra fasteigna ljúka. Í kjölfar kreppunnar féll þó húsnæðisverð um 60% í Dubai og um 40% húsnæðis er tómt.

Verktakar ákváðu að ljúka við byggingarnar í stað þess að stöðva framkvæmdir. Ef hætt hefði verið við áttu framkvæmdaaðilar í hættu á að verða lögsóttir og yrði mögulega gert að endurgreiða allar fyrirframgreiðslur sem fengnar voru í tengslum við framkvæmdir. Bloomberg fjallar um ástandið í Dubai í dag og segir að kostnaður við uppbyggingu hafi lækkað eftir kreppu. Lægri kostnaður og lægri vextir hvetja verktaka til að halda áfram að byggja. Kostnaður við að hætta er því mun hærri en að halda  áfram.

Kaupendur fasteigna í Dubai greiða yfirleitt 10% við upphaf framkvæmda og greiða síðan áfram í takt við hraða framkvæmda. Það þýðir að sá verktaki sem hefur fengið greitt um 50% af kaupverði fyrir efnahagskreppu þarf að endugreiða upphæðina ef hætt er í miðju verki. Það er í dag meira en virði eignarinnar. Að meðaltali hefur fasteignaverð í furstadæminu fallið um 62%, samkvæmt Deutsche Bank.

Áætlað er að framkvæmdum við um 48 þúsund heimili ljúki á næstu tveimur árum. Það jafngildir 12% fjölgun fasteigna. Um 1,1 milljón fermetrar af verslunarhúsnæði verður tilbúið til notkunar í Dubai í ár. Á síðasta ársfjórðungi 2010 féll leiguverð verslunarhúsnæðis um 30%.

Í frétt Bloomberg segir að fasteignamarkaðurinn sé skýrasta dæmið um ris og fall furstadæmisins. Enginn fasteignamarkaður í heiminum stækkaði jafn hratt og í Dubai á árunum 2006-2008. Verð á húsnæði fjórfaldaðist á árunum 2002-2008, í kjölfar ákvörðunar um að leyfa erlend eignarhald. Við fall Lehman Brothers í september 2008 snérust aðstæður hinsvegar hratt við og bankar hættu að lána verktökum í Dubai.