„Á þessum tímum er enn meira virði en nokkru sinni fyrr að skipta við íslenska aðila á öllum sviðum," segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, sem tók við nýju FKA-blaði út úr prentvélinni hjá Prentmeti Odda í morgun.

FKA-blaðið kemur út í dag og þar er kastljósinu beint að félagskonum FKA, fjölbreyttri starfsemi félagskvenna um land allt og jafnréttispúlsinn er tekinn á stjórnendum í atvinnulífinu. Fyrirtæki sem eru þátttakendur í Jafnvægisvog FKA eru einnig fyrirferðarmikil í blaðinu.

„Ef fyrirtæki eiga í erfiðleikum með að fá starfsumsóknir frá konum þá er spurning hver ásýnd fyrirtækisins sé, hvort að stjórnandinn sé búinn að byggja upp menningu eða umhverfi sem ekki er nógu aðlaðandi fyrir konur," segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, m.a. í blaðinu.

Ari Fenger formaður Viðskiptaráðs Íslands, bankastjórar allra viðskiptabankanna á Íslandi eru í viðtali og í ítarlegu forsíðuviðtali er konan í Kauphöllinni, Sigrún Ragna Ólafsdóttir.

„Í þessu glæsilega FKA-Blaði er forsíðuviðtalið við Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem var um tíma eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi. Engin kona er í slíku starfi í dag og þetta er því konan með stóru K-i í Kauphöllinni," segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, formaður FKA, sem vill fyrir hönd FKA þakkar öllum félagskonum og fyrirtækjum sem hafa látið tímaritið verða að veruleika.

„Í þessu 88 blaðsíðna glæsilega blaði eru viðtöl við þá sem eru leiðandi á sviði jafnréttismála á Íslandi og skilja í hverju ávinningurinn felst af þátttöku allra kynja á öllum sviðum fyrirtækja og stjórna. Burðarviðtöl eru við FKA konur sem hafa áhugaverða sögu að segja og umfjöllun er um helstu verkefni sem FKA hefur staðið fyrir og eru á döfinni á næstunni. Þá er virkilega ánægjulegt að taka móti fyrsta eintakinu úr höndum félagskonunnar Ingibjargar Steinunnar Ingjaldsdóttur, starfandi stjórnarformanns Prentmet Odda sem er Svansvottuð prentsmiðja í fremstu röð. Það er svo gaman að vekja athygli á því sem vel er gert, vekja athygli á framleiðslunni hjá félagskonum og konum í atvinnulífinu almennt," segir Hulda Ragnheiður.

FKA-Blaðið 2020 verður sent í pósti til allra félagskvenna á landinu og mega félagkonur eiga von á sendingu öðru hvoru megin við komandi helgi.

Forsíða FKA blaðsins.
Forsíða FKA blaðsins.
© Aðsend mynd (AÐSEND)