FKA; Félag kvenna í atvinnurekstri afhenti sínar árlegu viðurkenningar í gær að viðstöddum fjölda þeirra karla og kvenna sem standa í framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs. Hafdís Jónsdóttir, formaður félagsins bauð gesti velkomna en að því búnu flutti Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra ávarp og afhenti viðurkenningarnar.

FKA viðurkenninguna 2012 hlaut Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda hvalaskoðunarfyrirtækisins Hvalaskoðun Reykjavík – sem er þó betur þekkt undir nafninu Elding. Rannveig hafði aldrei leitt hugann að hvalaskoðun þegar faðir hennar hringdi í hana í hádeginu einn daginn og bauð henni í bíltúr suður með sjó. Þar sá hún skipið Eldingu í fyrsta sinn og einhvers staðar á Reykjanesbrautinni ákváðu þau feðgin að stofna hvalaskoðunarfyrirtæki. Rannveig starfaði þá sem deildarstjóri bókhaldssviðs 365 – en tveimur árum eftir að þau fjárfestu í Eldingu lét hún af störfum þar og hefur síðan helgað sig eigin rekstri. Fyrirtækið hefur líka vaxið jafnt og þétt enda er hvalaskoðun nú þriðja vinsælasta afþreying þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma. Floti félagsins hefur líka stækkað og telur nú 6 skip og veitir ekki af til að taka á móti þeim þúsundum ferðamanna sem eiga þann draum heitastan að sjá þessar tignarlegu dýr. Starfsmenn eru 18 á veturna en 45-50 á sumrin – en sjálf segist Rannveig sjaldan stíga um borð ... því hún verði svo svakalega sjóveik. Rannveig Grétarsdóttir stofnaði og stýrir Eldingu, félagi sem er leiðandi í ferðamannaiðnaði í dag. Í ræðu formanns FKA kom fram að velgengni fyrirtækisins væri ekki heppni. Gott gengi Eldingar fælist kannki frekar í „ótta hennar við stöðnun sem hefur í gegnum tíðina fengið hana til að henda sér út í djúpu laugina með krosslagða fingur ... en hvorki kút né kork. Það voru hinsvegar ótal sundtök; ótrúleg þrautseigja og elja sem komu henni upp á bakkann hinumegin“ sagði Hafdís um leið og hún veitti Rannveigu Grétarsdóttur FKA viðurkenninguna 2012.

Hvatningarviðurkenningu FKA hlutu þær Árný Elíasdóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir – stofnendur og eigendur Attentus ehf. Attentus veitir fyrirtækjum alhliða ráðgjöf í mannauðs- og fræðslumálum; býður upp á aðstoð við stefnumótun, þjálfun nýliða, stjórnendaráðgjöf, mat og þjálfun, vinnustaðagreiningar og áreiðanleikakannanir á sviði mannauðsmála – svo eitthvað sé nefnt. Þar fyrir utan er hægt að leigja hjá þeim bæði fræðslu- og mannauðsstjóra. Og eftirspurnin er gífurleg. Að þeirra sögn urðu mörg fyrirtæki að skera niður í starfsmanna- og fræðslumálum eftir hrun og sjá hagræði í því að láta Attentus sjá um þau mál í stað þess að hafa fasta starfsmenn í þessum stöðum. „Þar fyrir utan er oft auðveldara fyrir einhvern sem ekki vinnur dags daglega á staðnum að taka á erfiðum starfsmannamálum“ benda þær á. „Það má eiginlega segja að viðskiptavinir okkar séu að fá 3 eða 4 starfsmenn fyrir einn - því auk þess að búa yfir sérfræðiþekkingu á mannauðs- og fræðslumálum – þá höfum við þá sérstöðu að vera með lögfræðing innanborðs sem getur t.d. veitt ráðgjöf varðandi áminningar og uppsagnir.“ „Þær Inga, Árný og Ingunn eru stofnendur og eigendur Attentus – ólíkar konur, með fjölbreyttan bakgrunn en sameiginlega löngun til að aðstoða stjórnendur við að nýta hæfileika starfsmanna sinna, auka vellíðan þeirra og vöxt fyrirtækja sinna – öllum til heilla. Þetta hafa þær gert og hafa nú síðast skrifað undir árssamning við fyrirtæki á borð við Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Öryggismiðstöðina, Tal, Kex hostel og Nordic Visitor. Þær komu auga á þörfina, höfðu þekkinguna ... og nýttu tækifærið. Það er þannig fólk sem þjóðin þarf“ sagði Hafdís Jónsdóttir formaður FKA í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna í dag.

Þakkarviðurkenningu FKA hlaut Erla Wigelund, stofnandi og eigandi Verðlistans. Bernskudraumur Erlu Wigelund um að verða búðarkona rættist árið 1965 þegar hún opnaði verslunina Verðlistann við Laugalæk í Reykjavík, þar sem hún er enn til húsa. Þá hafði hún reyndar í nokkur ár gefið út verðlista þar sem fólk hvaðanæva af landinu gat pantað húsgögn, hljóðfæri og föt á fjölskylduna. En þó hún sé löngu hætt að selja borð og básúnur sinnir hún jafnt landsbyggðarfólki og höfuðborgarbúum og sendir kápur og kjóla út um allt land. Þrátt fyrir að Erla sé orðin 83 ára er engan bilbug á henni að finna. Hún segist alltaf taka „fyrri vaktina“ í versluninni og byrja hvern dag á því að snyrta til fyrir framan búðina; sópa á sumrin og moka snjó á veturna. „Ég moka reyndar ekki bílastæðin“ segir hún. „Ég fæ menn í það“ segir hún. Síðdegis sinnir hún skrifstofustörfunum; borgar reikninga, sér um markaðsmálin og allar erlendar bréfaskriftir enda telur hún það afar mikilvægt að mynda persónleg tengsl við erlendu birgjana jafnt sem viðskiptavini sína. „Það skilar sér“ fullyrðir Erla sem í gegnum tíðina hefur marga fjöruna sopið í viðskiptum; stýrt fyrirtæki sínu í gegnum óðaverðbólgu, gjaldeyrishöft og ótal gengisfellingar. Sjálf segir hún þrjóskuna hafa gagnast sér best í „bissnessnum“. „Ég er þrjóskari en allt sem þrjóskt er og það hefur bara aldrei komið til greina að gefast upp. Það er svo auðvelt. Sigurinn liggur í að leysa málin“. Það vefst heldur ekki fyrir henni hvað helst beri að varast í viðskiptum. „Græðgi“ segir hún ákveðin. „Hún er viðbjóður og vágestur í öllum mannlegum samskiptum. Markmiðið á að vera að standa í skilum, hafa í sig og á – og geta sofnað á kvöldin áhyggjulaus og sáttur við eigin samvisku. Þetta er ekkert flóknara en það“. Í ræðu sinni sagði formaður FKA að Erla hefði með útsjónarsemi sinni, hæfni í mannlegum samskiptum og þrautseigju tekist að halda sjó bæði í logni og brælu. Lífsgleði hennar, þjónustulund og „þrjóska“ er til eftirbreytni og fyrir það hlaut Erla Wigelund þakkarviðurkenningu

FKA 2012. Gæfusporið 2012 hlutu Katrín Olga Jóhannesdóttir og Sigríður Margrét Oddsdóttir sem fyrir rúmu ári síðan keyptu „Já.is“ í félagi við fjárfestingasjóðinn Auði 1. Þær stöllur þurftu ekki að hugsa sig tvisvar um þegar tækifæri til að kaupa þessa upplýsingaveitu – enda tóku þær báðar þátt í því að stofna félagið utan um 118 og símaskrána á sínum tíma. „Þetta er „barnið okkar“ sem við þekkjum út og inn“ segja þær. Segja má að „barnið“ þrífist líka vel hjá „mæðrum“ sínum því það hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt. Meðal þeirra nýjunga sem þær Katrín og Sigríður Margrét hafa hannað á undanförnum mánuðum má nefna „Já í símann“ og vefinn „Stjörnur.is“ sem er nokkurs konar neytendavefur þar sem almenningi gefst færi á að lofa eða lasta fyrirtæki, vörur eða þjónustu. Er þá ótalin nýjasti vefurinn „Iceland.já.is“ sem er heildstæður vefur fyrir erlenda ferðamenn um allt sem þá kann að vanta - eða vilja gera - á Íslandi. Starfsfólkið virðist líka una sér vel undir þeirra stjórn því skv. nýjustu mælingum er starfsfólk Já 86% ánægðara en það var 2005. Katrín Olga og Sigríður Margrét mörkuðu ákveðin spor í viðskiptasögunni þegar þær fjárfestu - ásamt Auði Capital - í fyrirtækinu Já. Bæði vegna þess að þar var um fyrstu „yfirtöku stjórnenda“ eða „management buy-out“ að ræða eftir hrun ... og vegna þess að þar riðu konur á vaðið. Þær hafa byggt upp öflugt fyrirtæki sem hefur á að skipa kjarkmiklum konum í lykilstöðum. „Það teljum við hjá FKA vera mikið gæfuspor og er sönn ánægja að veita þeim og fyrirtæki þeirra „Já“ Gæfuspor FKA 2012“ sagði formaður félagsins við afhendingu verðlaunanna í Ráðhúsi Reykjavíkur.