Félag íslenskra kvenna í atvinnurekstri, FKA, afhenti sínar árlegu viðurkenningar í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær.

„Hafdís Jónsdóttir, formaður félagsins ávarpaði gesti og bauð þá velkomna en að því búnu afhenti Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra fjórar viðurkenningar.

FKA viðurkenninguna 2011 hlaut Aðalheiður Birgisdóttir – betur þekkt sem Heiða í Nikita. Heiða stofnaði Nikita ásamt þremur öðrum árið 2000 og allar götur síðan hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt. Nikita framleiðir fyrst og fremst fatnað fyrir stelpur sem stunda snjóbretta-íþróttina en að sögn Heiðu hefur löngum verið lítið framboð af fötum fyrir stelpur í þeirri grein – og gildir þá einu hvort um er að ræða föt sem notuð eru á brettunum sjálfum eða svokallaðan „Street wear“ klæðnað. Nikita er orðið heimsþekkt vörumerki og selur vörur sínar í 30 löndum víða um heim. Öll hönnun og vöruþróun fer fram á Íslandi en vörurnar eru að mestu leyti framleiddar í Asíu. Skrifstofa félagsins í Þýskalandi sér hinsvegar um flest er lýtur að fjármálum og flutningum.
Undir stjórn Heiðu og félaga hefur Nikita náð fótfestu á erlendum markaði og þykir bera af á sínu sviði hvað snertir listræna útfærslu og vönduð vinnubrögð. Þrátt fyrir öran vöxt hefur skynsemin verið höfð að leiðarljósi. Til marks um það má nefna að yfirbygging félagsins er lítil og höfuðstöðvar Nikita eru enn í sama húsnæði og þær voru þegar lagt var af stað fyrir ellefu árum.

Hvatningarviðurkenningu FKA hlaut Margrét Pála Ólafsdóttir, leikskólastjóri og stofnandi Hjallastefnunnar. Margrét Pála er með meistaragráðu í uppeldis- og menntafræði og er nú að ljúka MBA námi – svona milli þess sem hún stýrir tíu leikskólum og þremur grunnskólum. Hún er löngu landsþekkt fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum kvenna, geðsjúkra, samkynhneigðra og ekki síst barna. Á sínum tíma mættu hugmyndir hennar um kynjaskipta leikskóla mikilli gagnrýni en óhætt er að segja að með árunum hafi tortryggni manna minnkað og mótvindurinn snúist í meðbyr. Sjálf segist hún sannfærð um að hægt sé að breyta heiminum með því að stuðla að vellíðan barna. Áhrifaríkasta leiðin sé að kenna börnum að standa með sjálfum sér en bera jafnframt virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum annarra. Á þessu byggi hugmyndafræði Hjallastefnunnar.
Margrét Pála hefur hlotið hina íslensku fálkaorðu og fjölda annarra viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf í skólamálum. Hún er óþreytandi þegar kemur að því að berjast gegn hvers kyns misrétti og mun vafalítið halda því áfram hvað sem öllu lófataki líður. Hvatningarverðlaun FKA hlýtur hún fyrir allt þetta; að vera til fyrirmyndar í frumkvöðlastarfi sínu og öðrum konum ómetanleg hvatning til að standa með sjálfum sér og láta til sín taka í samfélaginu,“ segir í tilkynningu.