Frá því að stofnfjármarkaður SPRON tók til starfa í lok september á s.l. ári hafa um 62% stofnfjár skipt um eigendur og stofnfjáreigendum fækkað úr 1.104 í 723. Tæplega 50 nýir hafa þó bæst í hópinn. Enginn einn aðili má eiga 10% stofnfjár eða meira í sparisjóði og er aðeins einn aðili í SPRON, sem nálgast þau mörk. Fimm aðilar til viðbótar eiga nálægt 5%, aðrir mun minna.

Samkvæmt lögum getur enginn farið með meira en 5% atkvæðamagns í sparisjóði.

Um þessar mundir er verið að leggja síðustu hönd á útboðslýsingu vegna stofnfjáraukningarinnar sem síðan verður send Fjármálaeftirlitinu til samþykktar. Þegar samþykkið liggur fyrir mun lýsingin verða aðgengileg á heimasíðu SPRON, www.spron.is, en einnig liggja frammi í útibúum SPRON. Eru stofnfjáreigendur hvattir til að kynna sér útboðslýsinguna vel áður en ráðist er í kaup á stofnfé. Þegar öllum undirbúningi er lokið og Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt útboðslýsinguna verður stofnfjáreigendum sent bréf, þar sem framkvæmd útboðsins verður lýst nánar.