Óveðrið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur nú sótt Ísland heim með áþreifanlegum hætti: Glitnir hefur sagt upp 88 starfsmönnum bankans í apríl og maí í flestum deildum og sviðum bankans hér á Íslandi en þar með er samræmdum uppsagnaraðgerðum Glitnis á Íslandi lokið.

Uppsagnirnar eru þó aðeins hluti af fækkun starfsmanna Glitnis því fram kemur af hálfu bankans að með þeim hafi stöðugildum á öllum starfssvæðum Glitnis fækkað um 255 vegna starfsloka, uppsagna eða þá vegna þess að lausráðnir starfsmenn hafa ekki verið fastráðnir.

Af þessum stöðugildum hefur verið fækkað um 15 í Danmörku, 60 í Noregi og tíu í London og Lúxemborg.

Þetta táknar þá að Glitnir hafi fækkað stöðugildum á Íslandi um 160 eða um 14% frá því í upphafi ársins en inni í því eru þá einnig tölur vegna starfsmannaveltu.

„Það er auðvitað hræðilegt að standa í þessu en við höfum ráðið mikinn fjölda fólks á undanförnum misserum. Með þessum aðgerðum erum við aftur komnir í þann fjölda starfsmanna á Íslandi sem var hjá okkur í upphafi ársins 2007,“ segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis.