FL Group er þátttakandi í hópi fjárfesta sem í dag tilkynnti um tilboð vegna kaupa á House of Fraser. Tilboðið er lagt fram í nafni Highland Acquisitions Limited (?Highland") en FL Group mun eiga 13,9% hlut í Highland ásamt því að fá sæti í stjórn félagsins segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Highland mun verða í eigu ýmissa fjárfesta en auk FL Group eru Baugur Group, Don McCarthy, West Coast Capital, Kevin Stanford, Stefan Cassar og Halifax Bank of Scotland meðal fjárfesta í Highland.

Tilboðið felur í sér verðið 148 pens á hvern hlut í félaginu, greitt með reiðufé, en það jafngildir að heildarvirði (e. enterprise value) House of Fraser sé rúmir 60 milljarðar króna. Stjórn House of Fraser hefur mælt með tilboði fjárfestahópsins við hluthafa sína (e. Recommended proposal).

Í tilkynningunni kemur fram að House of Fraser er leiðandi aðili í smásölu merkjavara í Bretlandi. Félagið rekur 61 verslun víðsvegar um Bretland og Írland undir nöfnunum House of Fraser, Frasers, Howells, Dickins & Jones, Rackhams, Army & Navy, Jenners og Beatties. Meðal þess sem félagið hefur upp á að bjóða má telja fatnað á konur, menn og börn, fylgihluti, snyrtivörur, húsbúnað, matsölustaði og fleira. Þessu til viðbótar er House of Fraser með sín eigin vörumerki eins og Linea og Therapy.

Á fjárhagsárinu sem lauk 28. janúar 2006 var velta House of Fraser um 135 milljarðar króna (1.011,8 milljónir punda, 910,2 milljónir punda á síðasta fjárhagsári). Hagnaður félagsins fyrir skatta og óreglulega liði var um 3.6 milljarðar króna (27,3 milljónir punda, 26,1 milljónir punda á síðasta fjárhagsárið 2005). Eigið fé House of Fraser þann 28. janúar 2006 var um 12 milljarðar króna (90,9 milljónir punda, 96,8 milljónir punda á síðasta fjárhagsári).

Gangi kaupin á House of Fraser í gegn munu þau öðlast gildi þann 8. nóvember 2006 í framhaldi af sérstökum hluthafafundi félagsins sem gert er ráð fyrir að haldinn verði 2. október 2006.

?Við erum mjög ánægð með þátttöku okkar í þessu tilboði í House of Fraser. Félagið er bæði sterkt og mjög vel þekkt í Bretlandi og uppfyllir allar þær kröfur sem FL Group gerir til fjárfestinga sinna. Við erum sannfærð um að þetta verði arðbær fjárfesting fyrir hluthafa okkar og að nýta megi þá þekkingu sem er innan fjárfestahópsins til frekari sóknar," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group, í tilkynningunni og bætir við: "Þetta er í fyrsta sinn sem FL Group gerir tilboð í skráð félag í Bretlandi en nýlega opnaði félagið skrifstofu í London. Fjárfestingin kemur í kjölfar vel heppnaðar fjárfestingar í Unity, þar sem umtalsverður hagnaður var innleystur af fjárfestingu í Marks & Spencer. Þessi fjárfesting sýnir sterkan vilja FL Group til þess að ná frekari fótfestu á breskum markaði."

Stefna okkar er að halda áfram fjárfestingum í bæði skráðum og óskráðum félögum og vinna áfram að því að gera FL Group að enn sterkara fjárfestingafélagi á evrópskum markaði."