Stjórn Glitnis greindi frá því í gær að lagt sé til að greiða hluthöfum í bankanum samtals 9,4 milljarða króna í arð, sem samsvarar 24,63% af hagnaði bankans eftir skatta á árinu 2006.

FL Group er stærsti einstaki hluthafinn í Glitni með 30,4% hlut og ef tillaga bankastjórnarinnar verður samþykkt á aðalfundi félagsins þann 20. febrúar næstkomandi munu arðgreiðslur til fjárfestingarfélagsins nema 2,9 milljörðum króna.

Hagnaður Glitnis eftir skatta nam 38,2 milljörðum króna og leggur stjórnin til að arðgreiðslurnar verði í samræmi við hlutafjáreign. Því sem eftir stendur, eða 28,8 milljörðum króna, verður ráðstafað til hækkunar á eigin fé Glitnis. Stjórnin leggur einnig til að hluthöfum skuli gefinn kostur á því að fá allt að helming arðs síns greiddan í hlutafé í bankanum á verðinu 24,8 krónur á hlut.

Helstu skráðu fjárfestingar FL Group, auk fjárfestingarinnar í Glitni, eru 6% hlutur í American Airlines, 22,4% hlutur í Finnair, 24,4% hlutur í Royal Unibrew, 10,4% hlutur í Bang & Olufsen og 13,3% hlutur í norska fjármálafyrirtækinu Aktiv Kapital.