FL Group hefur keypt 5,98% hlutafjár í AMR Corporation og verður með því þriðji stærsti hluthafi AMR Corp. Markaðsvirði fjárfestingarinar nemur í dag ríflega 28 milljörðum íslenskra króna, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

AMR Corp. er stærsta flugrekstrarfyrirtæki í heimi. Flugfélögin American Airlines, American Eagle og AmericanConnection þjóna 250 áfangastöðum í 40 löndum og fljúga yfir 4.000 ferðir á dag. Samanlagt ráða þessi félög yfir meira en 1.000 flugvélum. American Airlines, Inc. og American Eagle eru dótturfyrirtæki AMR Corporation. Hagnaður AMR Corporation fyrstu 9 mánuði þessa árs nam 214 milljónum dollara (um 15 milljörðum króna) og var velta félagsins á sama tíma 17,2 milljarðar dollara (um 1.200 milljarðar íslenskra króna).

FL Group hefur skapað sér nafn á evrópskum fjármálamörkuðum fyrir fjárfestingastefnu sína og hefur auk fjárfestinga í flugrekstri, verið umsvifamikið á sviði fjármálaþjónustu, drykkjaframleiðslu og smásölu. Innan við fjórðungur af heildarfjárfestingum FL Group í dag er í flugrekstri.

Á sviði flugrekstrar hefur FL Group náð umtalsverðum árangri í sínum fjárfestingum, þar með talið eru kaup á Sterling, stærsta lággjaldaflugfélagi á Norðurlöndum, og uppbygging 23% eignarhlutar í Finnair. Þá er félagið fyrrum eigandi Icelandair Group og sömuleiðis fyrrum eigandi 16,9% hlutar í easyJet, einu stærsta lággjaldaflugfélagi í Evrópu.

Fjárfestingar FL Group í flugrekstri hafa skilað félaginu hárri arðsemi. Sala á hlut FL Group í easyJet skilaði 13 milljarða króna hagnaði í apríl á þessu ári og í október innleysti FL Group 26 milljarða króna hagnað með sölu á öllum bréfum í Icelandair Group.

,,Við höfum þá trú að AMR Corporation sé í mjög góðri stöðu til að nýta sér þann vöxt sem er í flugrekstri í Bandaríkjunum," segir Hannes Smárason í yfirlýsingu með tilkynningunni.  "Mun meira jafnvægi ríkir nú milli framboðs og eftirspurnar en áður var og okkar mat er að AMR Corp. sé í mjög sterkri stöðu til að nýta sér það, auk þess sem það á auðvelt með að afla sér aukatekna. Við teljum þetta mjög spennandi fjárfestingu fyrir FL Group.?