FL Group er ekki lengur stærsti hluthafinn í bandaríska flugfélaginu American Airlines (AMR). Bandaríski sjóðurinn Fidelity MGMT hefur flaggað sér upp í 10.4% stöðu í AMR og er núna orðinn stærsti hluthafinn. Hann hefur verið að auka stöðu sína úr 5,4% í 10.4% á síðustu vikum í nafni sjóðs í eigin eigu sem heitir FMR. Sömuleiðis hefur sjóður í nafni Jeffrey L. Gendell komið sér í stærri stöðu en FL Group.


Bréf AMR féllu skarpt á markaði í gær og hafa bréf félagsins ekki farið lægra í rúmt ár en fallið í gær var um 13%. Ástæða fallsins var rakin til þriggja mánaða uppgjörs félagsins sem markaðurinn virtist taka illa. Svo virðist sem tekjur á farþega séu ekki að aukast eins og félagið vænti. Um leið er kostnaður félagsins að aukast. Haft var eftir greiningaraðilum vestra að félagið virtist ekki vera að hagnast á hlut eins og vænst hafði verið. Greiningardeild Lehman Brothers taldi að þróun rekstrarkostnaðar væri ekki eins hagfeld og vænst hafði verið. Svo virtist sem uppgjör AMR væri að draga önnur flugfélög niður þó afkoma þeirra væri betri.

sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag