FL Group hefur aukið hlut sinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet í 16,18% úr 13,99%, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Fyrst keypti félagið 0,99% í easyJet og jók svo hlutinn um 1,2% stuttu síðar og er heildareignarhluturinn nú 16,18%, segir í tilkynningu.

Gengi hlutabréfa easyJet tók strax að hækka eftir kaup FL Group á Sterling síðastliðinn sunnudag og hækkaði það um rúmlega 13 pens á mánudaginn vegna orðróms um að FL Group myndi gera tilraun til að auka við hlut sinn í easyJet.

Miðlarar í Bretlandi segja að orðrómurinn hafi kviknað vegna frétta um að FL Group hafi samþykkt að kaupa Sterling fyrir um 15 milljarða íslenskra króna.

Kaupþing banki og Landsbanki Íslands hafa sölutryggt 44 milljarða hlutabréfaútboð fyrir FL Group, sem verður að hluta til nýtt til að greiða fyrir Sterling. Ekki hefur komið fram í hvað félagið hyggst nýta afganginn.