FL Group fjárfesti mest skráðra félaga á erlendum vettvangi árið 2006 eða fyrir um 74 milljarða króna eins og kemur fram í nýjustu Kauphallartíðindum. Stærsta einstaka fjárfesting félagsins reyndist vera 28 milljarða króna hlutur í AMR Corporation.

Næst mest  fjárfesti Mosaic Fashions fyrir um 49 milljarða króna við kaup sín á Rubicon Retail og voru þau stærstu einstöku kaup skráðra félaga á árinu. Á eftir Mosaic Fashions kemur Hf. Eimskipafélag Íslands sem fjárfesti fyrir um 43 milljarða króna sem skýrist að mesta af yfirtöku félagsins á Atlas Cold Storage fyrir um 38 milljarða króna.

Í Kauphallartíðindum kemur fram að alls fjárfestu félögin í erlendum fyrirtækjum fyrir um 287 milljarða króna  samanborið við 265 milljarða króna árið 2005 og 210 milljarða króna árið 2004. Félögin hafa því fjárfest fyrir samtals um 762 milljarða króna á  síðustu þremur árum en til samanburðar má nefna að spá fjármálaráðuneytisins fyrir verga landsframleiðslu  ársins 2006 hljóðar upp á um 1.119 milljarða króna.

Eins og undanfarin ár studdi hlutabréfamarkaðurinn vel við útrásina en í síðasta tölublaði Kauphallartíðinda
kemur fram að skráð félög gáfu út nýtt hlutafé fyrir 163 milljarða króna á síðasta ári. Undanfarin þrjú
ár hafa félög í Kauphöllinni sótt meira fé á hlutabréfamarkað í hlutfalli af stærð markaðarins en félög í
nokkurri annarri evrópskri kauphöll.