FL Group hefur undirritað 250 milljóna evra lánssamning (um 21,5 milljarður króna) til fjármögnunar á hluta af hlutafjáreign FL Group í Glitni, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Lánið er til þriggja ára með endurgreiðslu höfuðstóls í lok lánstíma. UniCredit Group, með milligöngu Bayerische Hypo- und Vereinsbank AG, leiddi lántökuna sem var í formi sambankaláns.

"Með þessu hefur FL Group náð mikilvægum áfanga í fjármögnun félagsins. Þessi samningur til viðbótar við sölu á öllum hlut FL Group í Icelandair Group sem gengið var frá í síðustu viku, gerir að verkum að FL Group er afar vel í stakk búið til að takast á við þau áhugaverðu verkefni sem eru til skoðunar," segir í tilkynningunni.

"Þessi lántaka markar tímamót fyrir FL Group, sveigjanleiki til fjárfestinga eykst til muna ásamt því að samsetning skulda batnar. Þá teljum við þátttöku þessara virtu erlendu banka í sambankaláninu mikla viðurkenningu fyrir félagið því hún sýnir svo ekki verður um villst það traust sem FL Group hefur áunnið sér í alþjóðlegum fjármálaheimi," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group.

"FL Group átti mjög gott samstarf við Bayerische Hypo- und Vereinsbank við gerð þessa samnings og var árangur þess samstarfs einstaklega góður. Jafnframt sýnir samningurinn hversu mikils trausts Glitnir nýtur á evrópskum fjármálamarkaði," segir Hannes.