FL Group hefur aukið hlutafé sitt í Íslandsbanka úr 3,05% í 6,65% en sem kunnugt er mátti greiða hlutafjárloforð með bréfum í bréfum í ICEX vísitölunni. Er FL Group nú orðin flöggunarskyldur aðili í hluthafahópi Íslandsbanka.

Þann 10. nóvember 2005 fór fram lokað hlutafjárútboð í FL Group hf. Útboðsgengi hinna nýju hluta var 13,6 krónur fyrir hlut og var heildarfjöldi hluta í útboðinu 3.235.297.118. Var áskrifendum heimilt að greiða fyrir hlutina í reiðufé eða með hlutabréfum í Actavis Group hf., Bakkavör Group hf., HB Granda hf., Íslandsbanka hf., Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf., Marel hf., SÍF hf., Straumi - Burðarási Fjárfestingabanka hf. og Össuri hf. miðað við skráð lokagengi þessara hlutabréfa í Kauphöll Íslands hf. síðasta viðskiptadag fyrir upphaf áskriftartímabils.

Sama dag var áskriftum úthlutað og gengið frá skuldbindingum áskrifenda, sem ber að greiða kaupverð hinna nýju hluta eigi síðar en 16. nóvember 2005. Þær áskriftir sem úthlutað hefur verið samkvæmt framangreindu fela í sér að FL Group hf. mun eignast verulegan eignarhlut í Íslandsbanka hf.

Þess skal getið að verði gengi hlutabréfa í Íslandsbanka á greiðsludegi meira en 5% hærra eða lægra en sem nemur skráðu lokagengi þeirra þann 9. nóvember 2005 er stjórn FL Group hf. heimilt að hafna viðtöku viðkomandi hluta sem greiðslu og krefjast í stað þeirra peningagreiðslu úr hendi áskrifanda, eða hafnað áskrift að öðrum kosti. Kann þetta að hafa áhrif á flöggunarskyldu FL Group hf."