Í síðustu viku var tilkynnt um viðræður FL Group og Fons eignarhaldsfélags um kaup þess fyrrnefnda, á skandinavísku flugfélögunum Sterling og Maersk sem eru bæði í eigu þess síðarnefnda. Sumum finnst sem FL Group sé að færast mikið í fang með þessum kaupum en auk þessa hefur félagið verið að bæta við sig auknum hlut í breska lágfargjaldafélaginu easyJet og á nú orðið tæplega 14% hlut.

Í máli Vilhjálms Bjarnasonar, formanns samtaka fjárfesta og hluthafa í FL Group, kom fram að honum fyndist þessi staða í easyJet, samhliða kaupum í Sterling og Maersk, vera stórt álitamál. "Það er nýverið búið að skuldsetja félagið vegna kaupa á 15 þotum og þessum hlut félagsins í easyJet. Ég vil meina að þetta sé fremur stór biti fyrir félagið meðan það er ekki augljós útgönguleið út úr easyJet," sagði Vilhjálmur.

Jónas G. Friðþjófsson hjá Greiningu Íslandsbanka sagðist sammála því að félagið færist mikið í fang enda mörg járn í eldinum hjá því. "Fjárfestingin í easyJet er búin að vera mjög arðbær en hagnaðurinn er þó ekki í hendi þar sem FL Group er ekki búið að losa sig út úr henni," sagði Jónas.

Sjá nánar úttekt Viðskiptablaðsins í dag