Röð Stórra fjárfestinga í þekktum fyrirtækjum í Danmörku eru á leiðinni, upplýsir Hannes Smárason, forstjóri FL Group, í samtali við danska viðskiptablaðið Børsen í dag. Þess er þó getið að það geti breyst ef fyrirhugaðar skattabretingar dönsku ríkisstjórnarinnar ganga eftir.

Í greininni er sagt frá því að FL Group sé búið að fara úr því að vera flugfélag yfir í að vera fjárfestingafélag og hafi skilað methagnaði á síðasta ári, eða 44,6 milljarða króna eftir söluna á Sterling og Icelandair.

Hannes segir að 2007 verði árið sem FL Group geti fyrir alvöru orðið fjárfestingafélag.

Árið 2006 fór að mestu í að hreinsa til í eignasafni okkar, við seldum meðal annars Icelandair og Sterling og breyttum FL Group í fjárfestingafélag í staðinn fyrir að einblína á rekstrarsviðið. Þannig að árið 2007 verður mjög áhugavert ár, þar sem við getum farið í stærri fjárfestingar en áður, segir Hannes í viðtalinu.

Að lokum er Hannes spurður um hvort hugsanlegar skattabreytingar í Danmörku geti komið í veg fyrir fjárfestingar Fl Group og segir Hannes að það sé möguleiki. ,,En maður verður að sjá heildarmyndina áður en maður dregur ályktanir. En mitt ókeypis ráð til danskra stjórnvalda er að fara mjög varlega í löggjöf sem getur virkað óvinveitt fjárfestum, segir Hannes að lokum.