*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 11. desember 2007 11:13

FL Group gefur út nýtt hlutafé í desember

Ritstjórn

FL Group hyggst auka hlutafé félagsins með lokuðu útboði til fjárfesta og er stefnt að því að selja hlutafé fyrir allt að 10 milljarða króna. Í tilkynningu vegna útboðsins segir að tilgangur þess sé að styrkja eiginfjárgrunn félagsins og breikka hluthafahópinn í samræmi við tilkynningu félagsins frá 4. desember síðastliðnum um kaup á eignarhlutum í fasteignafélögum og -sjóðum í Evrópu.  

Stærð útboðs  

FL hyggst bjóða nýtt hlutafé fyrir allt að 10 milljarða króna. Hver hlutur verður seldur á 14,7 krónur og er því um að ræða allt að 680.272.109 nýja hluti, sem jafngildir um 7,36% aukningu á hlutafé félagsins. Verði eftirspurn í útboðinu verulega umfram 10 milljarða króna, verður hlutafjárútboðið stækkað um allt að 5 milljarða króna. Í því skyni verða gefnir út allt að 239.727.891 nýir hlutir til viðbótar og að auki seldir allt að 100.408.163 hlutir sem eru í eigu félagsins.  

Áskriftir

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hf. (Kaupþings) hefur umsjón með útboðinu. Hlutabréfamiðlun Kaupþings mun taka við áskriftum til kl. 4 síðdegis föstudaginn 14. desember 2007. Lágmarksandvirði hverrar áskriftar og kaupa er 5 milljónir króna.  

Niðurstöður

Stjórn FL mun í samráði við Kaupþing úthluta seldum hlutum og áskilur sér rétt til að hafna einstökum áskriftum að hluta til eða öllu leyti. Tilkynnt verður um niðurstöður útboðsins eigi síðar en kl. 9 árdegis mánudaginn 17. desember 2007.  

Viðskipti

Gert er ráð fyrir að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta í OMX Nordic Exchange Iceland hf. (OMX ICE) eigi síðar en fimmtudaginn 27. desember 2007.  

Uppgjör

Fjárfestar skulu greiða kaupverð hlutanna eigi síðar en kl. 4 síðdegis föstudaginn 4. janúar 2008. Frá og með fimmtudeginum 27. desember 2007 verða hinir nýju hlutir afhentir þeim kaupendum sem greitt hafa kaupverðið.  

Heimild stjórnar

Stjórn FL mun nýta hluta heimildar í b-lið 2. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins til að hækka hlutaféð.  

Fyrirvari              

Útboðið og hlutafjárhækkunin eru háð því að á hluthafafundi, sem boðaður er 14. desember 2007, samþykki hluthafar FL útgáfu allt að 3.659.265.291 nýrra hluta, á genginu 14,7 krónur á hlut, til Baugs Group hf. og dótturfélaga (Baugs) í skiptum fyrir hlutafé í tilteknum fasteignafélögum og -sjóðum. Ef selt verður hlutafé fyrir meira en 10 milljarða króna í útboðinu munu útgefnir hlutir til Baugs skerðast sem því nemur og samsvarandi fjárhæð, allt að 5 milljarðar króna, greidd Baugi í peningum.    

Forgangsréttarútboð á fyrsta ársfjórðungi 2008  

FL hyggst á fyrsta ársfjórðungi 2008 selja nýtt hlutafé í forgangsréttarútboði til hluthafa félagsins fyrir allt að 3 milljarða króna. Hver hlutur verður seldur á 14,7 krónur og verða því útgefnir allt að 204.081.633 nýir hlutir í kjölfar forgangsréttarútboðsins. Baugur hefur skuldbundið sig til að falla frá forgangsrétti sínum í útboðinu. Í kjölfar ársuppgjörs félagsins, sem væntanlegt er í byrjun febrúar 2007, verður tilkynnt um þann dag sem forgangsrétturinn miðast við (e. record date).