Samningur um 15 milljarða kaup FL Group á norræna lággjaldaflugfélaginu Sterling var undirritaður í Kaupmannahöfn í dag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Almar Örn Hilmarsson mun stýra félaginu áfram, segja heimildarmenn blaðsins.

"Rekstur Sterling mun verða aðskilinn frá öðrum félögum í flugrekstri sem eru í eigu FL Group og í dag eru engar áætlanir um að sameina Sterling og önnur félög sem FL Group hefur fjárfest í," segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

"Þá má sjá nokkra samlegðarmöguleika milli Sterling og annarra flugtengdra félaga í eigu FL Group. Sérstaklega má nefna kaup á vörum og þjónustu, svo sem flugvallaþjónustu, viðhald og eldsneytiskaup" segir í tilkynningunni.

Heildarkaupverð er 1,5 milljarðar danskra króna, og þar af verður 1.1 milljarður danskra króna greiddar með reiðufé og 400 milljónir verða greiddar með hlutabréfum í FL Group.

"Þetta er byggt á áætlaðri óendurskoðaðri sjóðstöðu upp á um 411 milljónir danskar krónur í lok árs 2005. Að auki voru vaxtaberandi skuldir Sterling um 210 milljónir danskar krónur. Því hefur skilyrðum um lágmarkssjóðstöðu samkvæmt kaupsamningi verið uppfyllt," segir í tilkynningunni

Kaupin voru háð samþykki samkeppnisyfirvalda á ákveðnum stöðum. Samkeppnisyfirvöldum í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi hefur verið tilkynnt um kaupin og hafa ákveðið að að hreyfa ekki við andmælum, segir í tilkynningu FL Group.

Samkeppnisyfirvöld í Danmörku og á Íslandi óskuðu eftir frekariupplýsingum varðandi kaupin. Dönsku samkeppnisyfirvöldin munu ekki kanna kaupin frekar en áfrýjunarnefnd samkeppnismála á Íslandi er nú að kanna hvort tilkynna þurfi um kaupin til samkeppnisyfirvalda í Íslandi.