Ef FL Group selur Icelandair í heilu lagi er það mat markaðsaðila að FL Group gæti fengið meira fyrir félagið en ef það skráir það í Kauphöllina og heldur eftir kjölfestuhlut eins og áður var ætlunin að gera.

Á markaðsdegi í síðustu viku kom fram að tekjuáætlun Icelandair fyrir árið 2006 nemur 51,5 milljörðum kr. og vonir standa til að EBITDA yfirstandandi árs verði svipuð og árið 2002 eða 5,9 milljarðar kr. Í Morgunkorni Glitnis í gær var bent á að miðað við að söluandvirði félagsins samsvari EV/EBITDA 8,0 megi reikna með að heildarvirði (EV) félagsins nemi u.þ.b. 44-48 milljörðum kr. Bókfært virði félagsins eru rúmir 8 milljarðar króna en greiningardeild Glitnis bendir á að erfiðara er að áætla skiptingu efnahagsreiknings FL Group sem er forsenda þess að reikna hugsanlegan söluhagnað vegna Icelandair Group.