Hannes Smárason sagði á blaðamannafundi í dag að söluhagnaður FL Group af skráningu Icelandair í Kauphöllina verði töluverður.

Hannes sagðist hins vegar ekki geta svarað nákvæmlega hversu hátt útboðið yrði en að það muni hlaupa á tugum milljarða

FL Group mun áfram veita Icelandair trausta kjölfestu en þessar breytingar eru í takt við þá stefnu FL group að vera að mestu leyti fjárfestingarfyrirtæki með sterka kjölfestustöðu í öðrum fyrirtækjum.

Aðspurður sagði Hannes ekki geta gefið upp hvað væri á döfinni hjá FL Group en félagið aflaði 44 milljarða í haust með hlutafjárútboðum, sem að hluta til fjármögnuðu kaupin á Sterling.

FL Group hefur því úr miklum söluágóða að spila. Hannes sagði þó ekki tímabært að gefa út neinar frekari tilkynningar. Hannes Smárason og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair group sögðust báðir búast við góðum viðbrögðum í Kauphöllinni og að eftirspurn yrði mikil eftir bréfum í félaginu enda stæði Icelandair vel að vígi.

Einnig hefur verið ákveðið að setja Kynnisferðir og Bílaleigu Flugleiða í sölumeðferð og sagði Hannes búast við að það myndi skýrast á næstu vikum. Makmiðið er að gera Icelandair Group að almennu hlutafélagi í dreifðri eignaraðild og munu almenningur og fagfjárfestar geta keypt bréf í félaginu í Kauphöllinni með vorinu. Kaupþing banki og Íslandsbanki verða umsjónaraðilar með útboðs og skráningarferlinu.

Þau félög sem mynda Icelandair group eftir þessar breytingar eru: Icelandair, Icelandair Cargo, Loftleiðir Icelandic, Icelandair Technical Services, Icelandair Ground Services, Bláfugl, Flugflutningar, Fjárvakur, Flugfélag Íslands, Icelandair Hotels og Íslandsferðir.