Stjórn FL Group hefur samþykkt að boða til hluthafafundar þann 9. maí næstkomandi og leggja fyrir hluthafa félagsins tillögu um skráningu félagsins úr kauphöll OMX Nordic Exchange á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem send var út í gærkvöldi.

Að fengnu samþykki hluthafafundar mun FL Group gera hluthöfum tilboð um að kaupa hluti þeirra í FL Group og greiða fyrir þá með hlutum í Glitni.

Í tilkynningunni kemur fram að um 83% hluthafa félagins hafa þegar afsalað sér rétti til tilboðsins og verða því áfram hluthafar í FL Group.

„Stjórn FL Group telur að skráning félagsins úr kauphöll OMX þjóni hagsmunum félagsins og hluthöfum þess best og veiti stjórnendum félagsins færi á að leggja frekari áherslu á langtímamarkmið. Síðustu mánuði hefur farið fram gagnger endurskoðun á fjárfestingastefnu og rekstri FL Group en félagið leggur nú áherslu á stöðugar langtímafjárfestingar og fjárfestingar í óskráðum félögum. Afskráning mun veita framkvæmda¬stjórn félagsins sveigjanleika til að horfa til lengri tíma í uppbyggingu félagsins og minnka kostnað og umsvif sem fylgja því að vera skráð félag,“ segir í tilkynningunni.

Afskráningarferli

Kaupverð hluta í FL Group í tilboði til hluthafa verður 6,68 á hlut sem var meðalgengi FL Group í aprílmánuði 2008 og gengi á hlutum í Glitni verður 17,05 á hlut sem var lokagengi Glitnis þann 30. apríl 2008. Skiptihlutfallið í tilboði til hluthafa verður því 0,3918 hlutir í Glitni banka fyrir hvern hlut í FL Group.

FL Group hefur gert samkomulag við Jötunn Holding ehf. um rétt FL Group til kaupa á hlutum Jötuns í Glitni sem nota skal í viðskiptunum. Þessi viðskipti hafa því engin áhrif á 31,97% eignarhlut FL Group í Glitni eða stöðu Glitnis sem einni af kjarnafjárfestingum FL Group.

Glitnir banki hefur umsjón með viðskiptunum.