FL Group gæti tekið þátt í yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni House of Fraser í samvinnu við Baug, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildarmenn blaðsins staðfestu að FL Group hefði átt í viðræðum við Baug um að taka þátt í kaupunum, en House Fraser staðfesti í dag að Baugur hefði gert óformlegt kauptilboð í félagið að virði 148 pens á hlut, sem samsvarar 351 milljón punda, eða í kringum 48 milljarða íslenskra króna.

Líklegt er að Bank of Scotland og Glitnir muni sjá um fjármögnun kaupanna, en FL Group hefur verið að auka jafnt og þétt við hlut sinn í bankanum og nemur eignarhluturinn nú 23%.

Baugur hefur áður unnið með Bank of Scotland við fyrirtækjakaup í Bretlandi, en íslensku samstarfsaðilarnir hafa verið oftar verið Kaupþing banki og Landsbanki Íslands.

Í tilkynningu frá House of Fraser til kauphallarinnar í London í dag sagði að ekki væri víst að formlegt kauptilboð myndi berast í félagið og að viðræðurnar væru á frumstigi.