FL Group hefur tilkynnt að Icelandair Group verði skráð í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2006. Uppgefið heildarvirði Icelandair Group eru 43 milljarðar kr. og áætlaður söluhagnaður nemur 26 milljörðum kr. miðað við heildarvirði hlutafjár. Þetta telur greiningardeild Glitnis sanngjarnt verð.

Áætla má að heildarvirði félagsins miðist við EV/EBITDA 7 og vænt EBITDA næsta árs upp á 6,2 milljarða kr. en það gæfi heildarvirði upp á 43,4 milljarða kr. Miðað við að bókfært virði Icelandair Group sé um 8,5 milljarðar kr. þá virðast hreinar vaxtaberandi skuldir upp á um 9 ma.kr. fylgja Icelandair Group. "Að okkar mati er verðlagning Icelandair sanngjörn miðað við gefnar forsendur," segir greiningardeild Glitnis.

Greiningardeildin segir ennfremur í Morgunkorni sínu að innlausn á væntum 26 milljarða kr. söluhagnaði af Icelandair Group séu verulega jákvæðar fréttir fyrir FL Group. Sala félagsins gefur FL Group aukinn slagkraft til að takast á við önnur og stærri fjárfestingaverkefni sem hafa meiri vaxtarmöguleika en Icelandair Group. Með innlausn hagnaðar á sölu easyJet sem nam 13 milljörðum kr. stefnir því í að FL Group innleysi á árinu um 39 milljarða kr. hagnað af sölu félaganna tveggja bendir

Fátt hefur verið eins mikið í umræðunni að undanförnu og söluferli Icelandair Group. FL Group ítrekar í fréttatilkynningu sinni í morgun að félagið sé reiðubúið að fylgja Icelandair Group úr hlaði sem kjölfestufjárfestir. Félagið segist einnig stefna að því að minnka hlut sinn verulega við skráninguna en að það gæti eins gerst fyrir skráningu. Því má ljóst vera að kjölfestuhlutur í Icelandair Group sé til sölu fyrir rétt verð.

Fyrirhugað er að almennt útboð verði haldið þar sem fagfjárfestum og almenningi gefst tækifæri á að skrá sig fyrir hlut í félaginu. Þá verður starfsmönnum Icelandair Group gefið tækifæri til að kaupa hlut í félaginu. Stjórnendur félagsins munu áfram leiða félagið og stjórnin verður óbreytt. Í tilkynningunni kemur fram að Glitnir banki hafi sölutryggt 51% hlut í Icelandair Group sem þýðir að félagið hverfur úr samstæðu FL Group.