FL Group hefur fest kaup á 24,2% hlut í Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu, en seljendur bréfanna eru Magnús Kristinsson, Kristinn Björnsson og tengdir aðilar.

?Ég tel að það sé Straumi farsælast að brjóta upp það eigendamynstur sem verið hefur í félaginu og freista þess þann veg að ná fram sáttum um áherslur og framtíðarsýn Straums-Burðaráss, segir Magnús Kristinsson.

Alls nemur andvirði viðskiptanna um 47 milljörðum króna en eftir kaupin mun FL Group eiga tæplega 26% hlutafjár í Straumi-Burðarás.

Í tilkynningu FL Group segir að greitt verður fyrir bréfin með hlutabréfum í Kaupþingi banka og FL Group. Seljendur munu fá hlutabréf í Kaupþingi banka að markaðsverðmæti 12 milljarða króna á genginu 748 og hlutabréf í FL Group að markaðsverðmæti um 35 milljarða króna á genginu 18,52.

FL Group mun gefa út nýtt hlutafé í tengslum við þessi viðskipti og er áætlað að auka útgefið hlutafé FL Group um 29% eða um 1,8 milljarða króna að nafnvirði.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits á kaupum á virkum eignarhlut í Straumi-Burðarás sem og samþykki hluthafafundar FL Group á útgáfu nýrra hluta í félaginu. Ráðgert er að halda hluthafafund FL Group þann 7. júlí næstkomandi.

Eftir fyrirhugaða aukningu hlutafjár FL Group verður eigið fé félagsins tæpir 110 milljarðar króna miðað við eigið fé félagsins þann 31. mars síðastliðinn. Markaðsvirði félagsins verður tæpir 140 milljarðar króna sé tekið mið af lokagengi gærdagsins.

Hlutafjáraukningin styrkir þannig eiginfjárhlutfall félagsins verulega, segir í tilkynningu FL Group, og mun aukið afl nýtast félaginu með margvíslegum hætti á komandi misserum.