FL Group hefur eignast 2,99% hlut í Commerzbank. Markaðsvirði hlutarins er um 63,5 milljarðar króna (723 milljónir evra). Kaup á bréfum hafa farið fram á undanförnum vikum, segir í tilkynningu. FL Group álítur Commerzbank mjög spennandi fjárfestingakost en ákvörðun um kaupin var tekin eftir ítarlega greiningu. FL Group telur bankann hóflega verðlagðan og að væntingar um sameiningar á evrópskum bankamarkaði verði að veruleika.

Commerzbank er annar stærsti banki Þýskalands og einn af leiðandi bönkum Evrópu. Þýskaland er langmikilvægasti markaður bankans enda er hann með 800 útibú vítt og breitt um landið. Bankinn er einnig með starfsemi í 40 löndum utan Þýskalands. Bankinn skilaði metafkomu árið 2006 sem nam 1.597 milljónum
evra (um 140 milljarðar króna). Markaðsvirði Commerzbank er 24,2 milljarðar evra (um 2.100 milljarðar króna):

?Fjárfestingin í Commerzbank fellur vel að fjárfestingarstefnu okkar," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group. "Við teljum að markaðsvirði bankans endurspegli ekki bata sem orðið hefur á starfseminni jafnt innan og utan Þýskalands. FL Group telur mikil tækifæri í banka- og fjármálaþjónustu og eru fleiri fjárfestingar til skoðunar," segir hann.