Gengi hlutabréfa í bandaríska flugrekstrarfélaginu AMR hefur hrunið um rúm 60% eftir að greint var frá því að stjórnendur hafi óskað eftir greiðslustöðvun til að forða félaginu frá gjaldþroti.

Fjármálamarkaðir eru að opna í Bandaríkjunum. Gengi hlutabréfa í félaginu endaði í 1,62 dölum á hlut við lokun viðskiptadagsins í gær. Áður en markaðir opnuðu vestanhafs í dag var gengið komið niður í 64 sent á hlut.

FL Group
FL Group
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

FL Group tilkynnti í desember árið 2006 að það hafi keypt tæpan sex prósenta hlut í AMR fyrir 400 milljónir dala, jafnvirði 29 milljarða króna á þáverandi gengi. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær kaup á hlutabréfunum hófust en lögum samkvæmt var ekki nauðsynlegt að greina frá þeim fyrr en 5% múrinn var rofinn. Gengi hlutabréfa AMR var þá á fleygiferð, stóð í kringum 27 til 30 dölum á hlut þegar FL Group flaggaði. Gengið hækkaði talsvert eftir það, náði hæst í 40 dali á hlut í byrjun árs 2007.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group á þeim tíma, sagði í tengslum við kaupin stjórnendur bera miklar væntingar til fjárfestingarinnar.

Um svipað leyti - í febrúar 2007 -  tilkynntu stjórnendur FL Group að félagið hafi keypt meira, væri nú komið með 8,63% hlut í AMR og væri stærsti hluthafi félagsins. Ekki hefur verið gefið upp um það hversu háum fjárhæðum FL Group varði til hlutabréfakaupanna en talið er að það hafi verið um 40 milljarðar króna.

Hannes fór ófáar ferðirnar til Bandaríkjanna þetta árið í því skyni að kreista fé úr rekstrinum, svo sem með sölu rekstrareininga og vildarklúbbs.

AMR
AMR
© AFP (AFP)

Gengi hlutabréfa AMR hrundi nær látlaust eftir að FL Group tilkynnti um kaup í félaginu. Í desember árið 2007 þegar FL Group og hluthafar félagsins voru byrjaðir að róa lífróður var svo komið að verðmæti eignahlutarins hafði hrunið og var AMR-hluturinn seldur með 15 milljarða króna tapi. Morgunblaðið greindi frá því á sínum tíma að FL Group hafi fengið 25,3 milljarða fyrir eignina og sjóðsstaða félagsins batnað um 10 milljarða króna. Miðað við það hafi 15 milljarðar farið í að greiða niður skuldir.

Skemmst er frá því að segja að Hannes fór frá sem forstjóri um svipað leyti og stærsti eignarhlutinn í AMR var seldur og tók Jón Sigurðsson við forstjórastólnum. FL Group tók upp nafnið Stoðir eignarhaldsfélag í júlí árið 2008. Í lok september sama ár óskaði félagið eftir greiðslustöðvun við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Hannes Smárason
Hannes Smárason
© BIG (VB MYND/BIG)