Kaup FL Group á hlutabréfum í Glitni af RedSquare Invest ehf., félagi í eigu Jóns Snorrasonar, hefðu brotið í bága við innherjareglur bankans eins og þær voru fram í júní á síðasta ári.

Sérfræðingur sem Viðskiptablaðið talaði við sagði að almenn viðmið í hlutabréfaviðskiptum væru að viðskipti fruminnherja svo skömmu fyrir uppgjör væru ekki til þess fallin að auka trúverðugleika félagsins og þeirra sem viðskiptin ættu.

"Þetta er t.a.m. það sem lagt er að nemendum í verðbréfamiðlunarnáminu, sem allir stjórnendur verðbréfaviðskipta þurfa að fara í gegnum."

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, vildi í samtali við Viðskiptablaðið ekki tjá sig um viðskiptin og sagði að ákveðin hefði verið sú verkaskipting að Fjármálaeftirlitið hefði með eftirlit með innherjaviðskiptum að gera. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, vildi ekki tjá sig um málið.

Í júní var ákvæði í innherjareglum Glitnis fellt út sem meinaði fruminnherja að eiga viðskipti með bréf bankans nema fyrstu fjórar vikur eftir uppgjör.

Kaupin, sem áttu sér stað 19. apríl, eða tveimur vikum fyrir ársfjórðungsuppgjör, brutu því ekki í bága við breyttar reglur bankans. Hannes Smárason, forstjóri FL Group, er stjórnarmaður og fruminnherji í Glitni.

Grein 4.1.3 í innherjareglunum, sem settar voru 15. október 2003 en var sem fyrr segir felld úr þeim í júní sl., hljómaði svona: "Að jafnaði skal litið svo á að fruminnherjum sé ávallt heimilt að eiga viðskipti í 4 vikur frá því uppgjör bankans eru birt í samræmi við reglur Kauphallar Íslands hf. Regluverði er þó heimilt að synja um viðskipti á þessu tímabili, ef svo ber við að hætta sé á því að viðkomandi fruminnherji búi yfir innherjaupplýsingum."

Regluvörður bankans, Grétar Hannesson héraðsdómslögmaður, sagðist ekki geta tjáð sig um fyrrnefnd viðskipti, en vísaði í tilkynningu til Kauphallar Íslands og innherjareglur bankans, þar sem segir að áður en fruminnherji eigi viðskipti með fjármálagerninga sem Glitnir hafi gefið út verði hann að hafa samband við regluvörð og greina honum frá því að hann vilji eiga viðskiptin.

Regluvörður skuli þá staðreyna hvort hætta sé á því að innherjaupplýsingar liggi fyrir um bankann og hafi vald til að meina fruminnherjanum um viðskiptin telji hann að svo sé.